Flottur sigur á Njarðvíkingum

Haukastelpur unnu glæstan sigur á Njarðvíkurstúlkum á Ásvöllum í gærkvöldi. Með sigrinum eiga Haukastúlkur ennþá von um að vera í efri hluta deildarinnar þegar henni verður skipt upp en það skýrist þegar Haukar og Keflavík spila hreinan úrslitaleik um hvort liðið fer í þann hluta næstkomandi miðvikudag.

Það var mikill hraði í upphafi leiks og Njarðvíkurstúlkur nýttu sér það og komust í 1-7 eftir aðeins tvær mínútur. Það var fínn tempó í leikmönnum beggja liða og voru þeir að skutla sér á eftir boltum og að berjast. Hafnfirðingar náðu að minnka muninn og komast yfir með þriggja-stiga skoti frá Heather Ezell um miðjan fyrsta leikhluta 15-14.

Annar leikhluti var eign Hauka og þá kannski helst Heather Ezell en hún skoraði 22 stig í leikhlutanum og var því kominn með 34 stig þegar flautað var til hálfleiks en hún skoraði 12 stig í þeim fyrsta.
 
Liðin skiptust á körfum fyrstu mínútuna í öðrum leikhluta en í stöðunni 37-25 Haukum í vil kom frábær kafli hjá heimastúlkum þar sem munurinn jókst jafnt og þétt og áður en yfir lauk munaði 27 stigum í hálfleik. Til að kóróna frábæra frammistöðu Heather Ezell setti hún flautukörfu langt utan að velli og allt virtist falla með Haukaliðinu.
 
Seinni hálfleikur varð aldrei spennandi því að lið Hauka var aldrei að fara gefa frá sér muninn og höfðu þær að lokum sigur 94-65.
 
Heather Ezell var með ótrúlega þrennu í leiknum en hún skoraði 40 stig, gaf 13 stoðsendingar og tók 10 fráköst. En það sem stóð upp úr í leik Hauka var hve margir leikmenn lögðu sitt af mörkum í sókn og vörn en það hefur háð liðinu í vetur hve leikmenn liðsins treysti á að Heather Ezell geri allt. Kiki Lund skoraði 17 stig og Helena Hólm 10.