Ungverska handknattleiksliðið Pler KC, sem leikur tvo leiki gegn Haukum í Evrópukeppni félagsliða um helgina, kemur til landsins í dag. Liðið tapaði einungis með einu marki gegn Pick Szeged, toppliði ungversku deildarinnar, fyrr í vikunni og voru óheppnir að ná ekki jafntefli miðað við gang leiksins. Það segir sitt um styrk liðsins þótt nokkur titringur hafi verið í herbúðum þeirra að undanförnu. Haukastrákarnir hafa undirbúið sig af kappi fyrir leikina tvo. Þó nokkurt myndefni er til af ungverska liðinu og hefur það auðveldað undirbúninginn. Strákarnir höfðu þó tíma til að brosa framan í myndavélina og má sjá afrakstur þess á svæði meistaraflokks karla hér á síðunni.
Rétt er að hvetja alla áhugamenn um handbolta til að mæta á leikina tvo á Ásvelli og styðja við bakið á strákunum. Hægt er að fá miða á báða leikina á aðeins 1.500 kr.