Rán um hábjartan dag – en sætt var það

Stefán Rafn átti fína innkomu í leiknum í gærHaukar eru komnir 1-0 yfir í úrslitaeinvíginu gegn Val um Íslandsmeistaratitilinn í N1 deild karla eftir ævintýranlegan sigur 23-22 í fyrsta leik liðanna að Ásvöllum í gærkvöldi. Það verður að segjast eins og er að þetta var rán um hábjartan dag enda Valsmenn betri aðilinn lengst af en þannig er nú boltinn einu sinni, leikurinn er 60 mínútur og það er sá sem er yfir þegar bjallan glymur sem fer með sigur af hólmi. Það er ekkert unnið með fimm marka forystu um miðbik síðari hálfleiks. Enn eina ferðina sýndur Haukastrákarnir því gríðarlegan karakter og sigurvilja sem gerði þeim kleift að snúa leiknum sér í hag með frábæri endurkomu á lokakafla leiksins. Pétur Pálsson átti frábæran síðari hálfleik, gerði fimm mörk þar af tvö sérlega glæsileg auk þess að fiska víti með miklu harðfylgni eins og honum einum er lagið. Sigurbergur reif sig upp eftir slaka byrjun og Einar Örn gerði nokkur mörk á mikilvægum augnablikum. Mikilvægasta markið átti þó Breiiðhyltingurinn Björgvin Þór Hólmgeirsson sem stal sigrinum með marki nokkrum sekúndum fyrir leikslok. Stemmningin á leiknum var stórkostleg og voru áhorfendur beggja liða vel með á nótunum sem lofar góðu fyrir framhaldið á einvíginu. Í dag gefst leikmönnum og stuðningsmönnum færi á að hvíla sig á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins en einvígið heldur áfram á Hlíðarenda kl . 16 á morgun þar sem Haukafólk ætlar að mæta í hvítu og styðja sitt lið.

Haukar virtust ætla byrja leikinn af miklum krafti og skoruðu strax tvö mörk. Síðan tóku Valsmenn hins vegar af skarið og náðu forystu sem þeir héldu allt þar til á lokasekúndum leiksins. Eins og við var að búast voru varnir liðanna og markvarsla í aðalhlutverkum. Haukavörnin lenti þó í nokkrum vandræðum strax um miðbik fyrri hálfleiks þegar Freyr Brynjarsson fékk sína aðra brottvísun en Freyr gegnir lykilhlutverki í 5:1 vörn Hauka. Vörnin hélt engu að síður ágætlega enda skoruðu Valsmenn aðeins 11 mörk í fyrri hálfleik. Það var á hinum enda vallarins sem Haukar áttu í vandræðum enda tókst einungis átta sinnum að finna leið í netmöskva Hlíðarendaliðsins. Valsmenn náðu um skeið fimm marka forystu 4-9 og fór um áhangendur liðsins sem þéttu þá lófatakið og hljómsveitin á plöllunum blés að meiri krafti í lúðrana sem gaf leikmönnum meiri byr í seglin og tókst að minnka muninn í tvö mörk 7-9. Hlynur Mortens var leikmönnum Hauka erfiður ljár í þúfu og Valsmenn höfðu þriggja marka forystu í hálfleik 8-11.

Í seinni hálfleik var áfram hart tekist á en Valsmenn virtust eiga nokkuð auðveldara með að finna leið gegnum vörnina en Haukar hinum. Forysta Valsmanna varð mest 11-16 þegar u.þ.b. 40 mínútur voru liðnar af leiknum. Þá var útlitið svart en um þetta leytið tókst Haukum að hefja leik sinn á hærra plan. Breiddin jókst í sóknarleiknum og Pétur Pálsson átti frábæran kafla og skemmti áhorfendum með tilþrifum sínum. Þegar tíu mínútur voru eftir var tveggja marka munur 17-19 fyrir Val, enn var tveggja marka munur 19-21 þegar þrjár mínútur voru eftir en þá tókst Haukum að jafna 21-21. Enn var jafnt 22-22 þegar innan við mínúta var eftir og Valsmenn með boltann. Birkir Ívar varði síðan skot Fannars Friðgeirssonar, eins og svo mörg önnur á lokamínútunum, og Björgvin Þór skoraði sigurmark Hauka eins og áður segir. Valsmenn brunuðu reyndar upp og náðu að komast í opið færi en Birkir Ívar varði en óljóst er hvort leiktíminn var liðinn eða ekki.

Haukaliðið á hrós skilið fyrir frábæra endurkomu. Valsmenn sýndu sömuleiðis að þeir ætla að gefa sig alla í leikina og búast má við hörku  rimmu á milli þessara liða. Stuðningsmenn beggja liða fóru á kostum og var stórkostlegt að upplifa stemmninguna á leiknum. Vonandi mun henni bara vaxa ásmegin eftir því sem á líður.

Næsti leikur er á morgun, sunnudag, kl. 16 á Hlíðarenda. Mætum öll í hvítu og styðjum okkar lið. Áfram Haukar!

Vekjum athygli á flottum myndum frá leiknum á sport.is