Eftir sigur Vals á Akureyri í framlengdum þriðja leik liðanna í undanúrslitum N1 deildar karla liggur fyrir að Haukar og Valur mætast í úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitilinn. Þetta er annað árið í röð sem þessi KFUM félög takast á um titilinn en í fyrra lauk viðureigninni með 3-1 sigri Hauka þar sem Haukastrákarnir fögnuðu í Vodafone-höllinni. Fyrsti leikur liðanna fer fram á föstudagskvöldið kl. 20:00 á Ásvöllum. Það er engum blöðum um það að flétta að um tvö bestu lið landsins er að ræða. Liðin lentu í tveimur efstu sætum deildarinnar og léku til úrslita í Eimskipsbikarnum. Fyrsta viðureign liðanna var í lok september þar sem liðin tókust á sem ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar í Meistarakeppni HSÍ. Valur sigraði þann leik 21-22. Liðin skildu síðan jöfn að Hlíðarenda 20-20 í lok nóvember í fyrra, Haukar sigruðu svo með eins marka mun 25-24 á Ásvöllum í byrjun mars en Valsmenn báru sigur úr býtum í lok mars á heimavelli Hauka 20-24. í úrslitum Eimskipsbikarsins unnu Haukar öruggan sigur 23-15 en sá leikur fór fram í lok febrúar. Það er því óhætt að segja að liðin hafi háð harða baráttu í vetur þótt Haukar hafi borið gæfu til að vinna þá titla sem hafa verið í boði fram til þessa. Handknattleiksáhugafólk er því hvatt til að taka virkan þátt í þeirri hátíð handboltans sem úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn er. Sjáumst á föstudagskvöldið á Ásvöllum!