Haukar leika einn mikilvægasta leik tímabilsins í kvöld þegar að Þór frá Þorlákshöfn mætir á Ásvelli í baráttunni um efsta sætið í 1. Deildinni. Liðin eru jöfn af stigum og mun því það lið sem sigrar leikinn tróna eitt á toppnum.
„Leikurinn í kvöld er gríðarlega mikilvægur fyrir liðið og menn hafa tækifæri til þess að sýna úr hverju þeir eru gerðir. Þór Þorlákshöfn er með mjög sterkt lið og góða blöndu af leikmönnum bæði aldurslega og stöðulega. En ég á vona á því að við komum tilbúnir til þess að berjast um toppsætið,“ sagði Pétur Ingvarsson þjálfari Hauka þegar síðan heyrði í honum fyrir leikinn.
Pétur gefur ekkert út á gagnrýnisraddir og stúkutal um að liðið sé að gefa eftir en síðutu leikir gegn liðum í botninum hafa ekki verið mikið fyrir augað þrátt fyrir að sigrar hafa náðst.
„Liðið setti sér markmið fyrir tímabilið bæði hvað við stefndum á að vinna marga leiki og svo hvað við ætluðum að gera varnarlega og sóknarlega sem við höfum aldrei náð almennilega í vetur, en vonandi bætum við úr því. Að keyra upp skorið í lok leiks til þess að niðurlægja andstæðinga er ekki minn stíll, við leyfum mörgum að spila og vonandi skilar það sér fyrir liðið til lengri tíma,“ segir Pétur og bætir jafnfram við að nokkrir að lykilmönnum liðsins hafi verið að berjast við meiðsli.
„Nokkrir lykilmenn liðsins eru búnir að vera meiddir og hafa verið að meiðast þannig að það tekur smá tíma fyrir menn að taka á sig aukna ábyrgð og álag.“
Haukamenn mætum í stúkuna og hvetjum okkar lið til sigurs í kvöld.