Arnar Bergmann Gunnlaugsson í Hauka

Í dag var tilkynntur nýr leikmaður Hauka sem verður einnig aðstoðarþjálfari liðsins. Um er að ræða Arnar Bergmann Gunnlaugsson sem skrifaði undir tveggja ára samning við Hauka.

Arnar Bergmann sem er 36 ára kemur til Hauka frá Val þar sem hann spilaði seinni part tímabilsins í sumar en fyrri part tímabilsins þjálfaði hann og spilaði með ÍA í 1.deildinni. Hann hefur einnig leikið með KR og FH hér á landi. Arnar lagði skónna á hilluna sumarið 2007 eftir tímabilið með FH en hætti svo við að hætta og tók við liði ÍA með bróðir sínum Bjarka og lék með þeim árið 2008 en náði ekki að halda liðinu uppi. Þeir bræðurnir hættu síðan með liðið í sumar og fóru báðir til Vals.Eftir tímabilið höfðu þeir sagt verið búnir að leggja skónna á hilluna en það er greinilegt að Arnar ætlar að taka að minnsta kosti eitt ár í viðbót og það í Haukatreyjunni.

Það er gríðarlega mikill fengur fyrir Hauka að fá eins reynslumikinn mann eins og Arnar er, hann á yfir 30 landsleiki að baki og hefur leikið með liðum eins og Bolton, Leicester City og Stoke City á Englandi, Sochaux í Frakklandi og Dundee United í Skotlandi. Auk þess sem Arnar mun spila með Haukum verður hann aðstoðarþjálfari liðsins og tekur við af Garðari Smára Gunnarssyni.

Arnar er þriðji leikmaðurinn sem gengur til liðs við Hauka en áður hafði Guðmundur Viðar Mete komið frá Val og Kristján Ómar Björnsson frá Þrótti. Fleiri leikmenn eru í sigtinu og munu nýjustu tíðindi af leikmannamálum Hauka koma á síðuna við fyrsta tækifæri.

Við bjóðum Arnar velkominn í Hauka.

Mynd:  Arnar Gunnlaugsson í Haukabúningnum í gær, eftir að hafa skrifað undir tveggja ára samning við Hauka – Hafliði Breiðfjörð/Fótbolti.net

 

 

Mynd: Ingvar Magnússon formaður meistaraflokksráðs Hauka, Arnar Gunnlaugsson spilandi aðstoðarþjálfari Hauka, Páll Guðmundsson formaður rekstrarsfélags Hauka – Hafliði Breiðfjörð/Fótbolti.net