Fréttatilkynning – Schenkerhöllin á Ásvöllum
Samkomulag hefur náðst á milli Hauka og fyrirtækisins DB Schenker um að Schenker verði einn af aðalstyrktaraðilum félagsins. DB Schenker er leiðandi fyrirtæki í vöruflutningum á heimsvísu sem hefur nýlega opnað skrifstofur hér á landi undir eigin merkjum og bætist Ísland þá í hóp rúmlega 2.000 þjónustumiðstöðva félagsins í um 140 löndum.
DB Schenker styður við íþróttahreyfinguna í mörgum löndum enda metur fyrirtækið mikils það forvarnarstarf sem íþróttahreyfingin vinnur. Stefnan hefur verið að velja sér eitt sterkt og öflugt íþróttafélag í hverju landi og styðja það með myndarskap. Íþróttamiðstöð Hauka á Ásvöllum mun bera nafn Schenker og verða kölluð Schenkerhöllin og knattspyrnuleikvangur Hauka verður Schenkervöllurinn og bætast Ásvellir þá í hóp með handbolta-, knattspyrnu- og íshokkihöllum í Þýskalandi og Skandinavíu.
Haukar þakka DB Schenker fyrir stuðninginn og óska þeim velfarnaðar með nýju skrifstofuna á Íslandi. Haukafólk verður vafalítið duglegt við að nota nýja nafnið til að það nái góðri útbreiðslu sem fyrst.
Áfram Haukar!