Vorferð Öldungaráðs Hauka 2015

hvalfjordurÞað voru rúmlega 30 ánægðir Öldungaráðsfélagar sem í gærkvöldi stigu út úr rútunni hér á Ásvöllum eftir ánægjulega dagsferð um vesturland.

Fyrsti áfangastaður ferðarinnar var Hvalfjörður þar sem hópurinn naut veitinga í boði Hvals h/f í húsnæði þar sem komið hefur verið upp safni um sögu hvalveiða fyrirtækisins. Gulli stöðvarstjóri sem er tengdasonur eins af stofnendum félagsins, Bjarna Sveinssonar, tók á móti hópnum og leiddi hann í gegnum söguna. Því næst var ekið að Hlöðum þar sem Hernámssafnið er til húsa. Þar átti hópurinn góða og áhugaverða stund með starfsmanni safnsins. Þar næst lá leiðin í Lundareykjadal að Fossatúni við Grímsá. Þar settist hópurinn að veisluborði og naut gómsæts kvöldverðar undir tónlist og náttúrulífssýningu í stórkostlegu umhverfi. 24. vorferð Öldungaráðs Hauka er lokið og öllum sem að ferðinni komu eru sendar bestu þakkir.