Viðurkenningarhátíð Hauka á Gamlársdag 2022.

 

Elín Klara Þorkelsdóttir var valin íþróttakona Hauka, Heimir Óli Heimisson var valinn iþóttamaður Hauka og Kristján Ó. Davíðsson var valinn þjálfari Hauka. Hér eru nokkrar myndir frá viðurkenningarhátíðinni. Tjörvi Þorgeirsson tók við viðurkenningunni fyrir hönd Heimis Óla sem ekki hafði tök á að mæta.

Hér fylgir einnig ávarp formanns Hauka, Magnúsar Gunnarssonar.

Kæru vinir, iðkendur, þjálfarar, foreldrar og aðrir gestir, gleðilega hátíð.

Í vikunni fór fram val á íþróttamanni og þjálfara ársins, en það eru Samtök íþróttafréttamanna sem standa fyrir því kjöri. Glæsilegur fulltrúi íslenskt íþróttafólks var þar valinn íþróttamaður ársins, Ómar Ingi Magnússon, og er hann vel að þeirri viðurkenningu kominn. Auk Ómars voru tilnefndir fjölmargir einstaklingar sem skarað hafa framúr í sinni íþrótt sem og voru þeir þjálfarar sem þóttu standa fremstir á árinu heiðraðir, Þórir Hergeirsson kjörinn þjálfari ársins og Guðrún Arnardóttir, frjálsíþróttakona tekin inn í Heiðurshöll ÍSÍ.
Nú við áramót höldum við Haukar okkar viðurkenningarhátíð þar sem við veitum okkar góða íþróttafólki viðurkenningar og tilnefnum einstaklinga í kjöri um íþróttakonu og íþróttamann Hauka fyrir árið 2022.
Ég nefndi hér áðan sérstaklega kjör á íþróttamanni ársins, þjálfara ársins og Guðrúnu Arnardóttur, frjálsíþróttakonu, sem tekin var inn í Heiðurshöll ÍSÍ, en hver er vegferð þeirra sem hljóta slíkar viðurkenningar,,. Jú, enginn er verður þess að fá slíka upphefð nema hafa náð glæstum árangri, hafa stundað íþrótt sína af elju og metnaði og vera tilbúinn að fórna miklu til að ná langt.
Lykilinn að velgengni er ástundun og ástríða, góð þjálfun, góð umgjörð og ekki hvað sýst einlægur og góður stuðningur frá fjölskyldu og vinum. Þá má einnig til nefna sjálfboðaliða sem með margvíslegum hætti styðja við félagið sitt og eru félagi sínu afar mikils virði. Framlag þeirra ber að þakka og halda ætíð hátt á lofti.
Um áramót er margs að minnast þegar litið er yfir starfsemi Hauka á árinu 2022. Við getum fagnað þróttmiklu íþróttastarfi á árinu samhliða því að nú styttist senn í enn betri aðstöðu á Ásvöllum. Nýr grasvöllur er nær fullgerður, nýtt gervigras var lagt á aðalkeppnisvöll félagsins í sumar, vallarsvæði afgirt og verið er að setja nýjan ljósabúnað við knattspyrnuvöll. Þá eru íslenskir Aðalverktakar að hefja framkvæmdir við nýtt fullkomið knatthús og hafin er bygging íbúða á svæði félagsins. Þannig erum við að leggja grunn að enn betri aðstöðu hér á Ásvöllum fyrir alla okkar iðkendur. Þá má ekki gleyma því að bæði handboltasalur og körfuboltasalur félagsins var á árinu vinsæll keppnisstaður fyrir landsliðin okkar í handknattleik og körfuknattleik sem náðu þar góðum úrslitum.
Við getum því sagt með sanni að Íþróttamiðstöð Hauka standi svo sannarlega undir nafni.

Öll þessi mikla uppbygging á svæði félagsins gerist ekki nema með einstökum stuðning bæjaryfirvalda. Vil ég nota þetta tækifæri og færa bæjarstjórn Hafnarfjarðar þakkir fyrir góðan stuðning við þau stóru verkefni sem unnið er að hér á Ásvöllum. Þúsund þakkir fyrir ykkar góða framlag og skilning á mikilvægi íþrótta í okkar góða bæjarfélagi.

Kæru vinir!
Nú skulum við snúa okkur að viðurkenningarhátíð okkar með því að kalla til þá iðkendur sem hafa tekið þátt í ýmsum viðburðum á vegum sérsambanda.
Einnig liggja fyrir tilnefningar um val á íþróttakonu og íþróttamanni Hauka sem og tilnefningar um þjálfara ársins.

Magnús Gunnarsson,
Formaður Hauka.