Það var mikið fjör og gaman í handboltabúðum Hauka um páskana. Þátttakan var góð og krakkarnir lögðu sig alla fram í að læra ný tækniatriði og skotafbrigði. Stelpurnar voru nokkuð margar og gáfu strákunum ekkert eftir.
Það var einnig spennandi og skemmtilegt að fá gesti frá Þýskalandi en 23 drengir fæddir 2000 og 2001 frá Hannover/Burgdorf tóku þátt í búðunum. Síðan var spilaður „alvöru æfingalandsleikur“ við strákana okkar í 5. og 6. flokki á þriðjudeginum. Þar fóru okkar drengir á kostum og sýndu að þeir eru búnir að vera duglegir að æfa.
Hápunkturinn var síðan heimsókn frá landsliðsmönnunum Ingimundi Ingimundarsyni og Sturlu Ásgeirssyni ásamt landsliðskonunni Hrafnhildi Skúladóttur. Þau eru öll flottar fyrirmyndir og gáfu sér góðan tíma til að bæði spjalla við og þjálfa krakkana. Við þökkum þeim kærlega fyrir komuna.
Við horfðum á spóluna „ Frá byrjanda til landsliðsmanns“. Hún hentar öllum aldurshópum og er mjög góð fyrir þá sem vilja sjálfir reyna að bæta sig og læra ný tækniatriði. Sturla og Ingimundur bjóða ykkur hana á tilboðverði; 2500. Tilvalin afmælisgjöf. Pantanir á netfangð: ihuldabjarna@aslandsskoli.is
Framtíðin er greinilega björt hjá Haukum og við vonum að allir haldi áfram að æfa svona vel og bæta sig.