Upphitun fyrir fjórða leik úrslitaeinvígisins: Umfjöllun um línumenn liðanna

Pétur Pálsson hefur verið mjög sterkur í úrslitaeinvíginu gegn ValHaukar geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik með sigri að Hlíðarenda í kvöld en leikurinn hefst kl. 19:30. Stórkostleg stemmning var á síðasta leik og má búast við fullu húsi að Hlíðarenda. Haukar fögnuðu titlinum á fjölum sama húss fyrir ári síðan þegar liðið vann Val 3-1 í úrslitaeinvíginu. Haukar hafa því tækifæri á að endurtaka leikinn í kvöld. Haukasíðan hefur borið saman leikmenn liðanna í einstaka stöðum á vellinum og í fyrri umfjöllunum var kastljósinu beint að markvörðum, hornamönnum og leikstjórnendum liðanna. Að þessu sinni er fjallað um línumenn í liði Hauka og Vals. Hjá Hlíðarendaliðinu eru það þeir Ingvar Árnason, Orri Freyr Gíslason og Gunnar Harðarson. Hjá Haukum skipta Pétur Pálsson, Heimir Óli Heimisson og Jónatan Ingi Jónsson með sér línuhlutverkinu. Línumenn Hauka skoruðu samtals 77 mörk í vetur á meðan að kollegar þeirra hjá Val skoruðu 84 mörk.

Ingvar Árnason (23 ára) og Orri Freyr Gíslason (21 árs) skipta línumannsstöðunni hjá Val bróðurlega á milli sín á meðan að Gunnar Harðarson (24 ára) er fyrst og fremst nýttur sem varnarmaður. Þannig skoruðu þeir hvor um 40 mörk í vetur. Þeir eru báðir líkamlega sterkir leikmenn og miklir baráttuhundar beggja vegna vallarins. Hvorugur skipar sér í hóp boltafimustu línumanna landsins en gegna engu að síður mikilvægu hlutverki í Valsliðinu.

Pétur Pálsson er baráttujaxl af bestu gerð sem leggur sig ætíð 100% fram jafnt í leikjum sem á æfingum. Hann hefur sýnt sínar bestu hliðar í úrslitaeinvíginu til þessa þar sem hann hefur skorað fjölda glæsilegra og mikilvægra marka og sótt vítaköst af miklu harðfylgni. Pétur er lágvaxinn af línumanni að vera en bætir það svo sannarlega upp með mikilli baráttu og útsjónarsemi.

Heimir Óli Heimisson er einn efnilegasti línumaður og varnarjaxl landsins og mun vafalaust gegna lykilhlutverk í liði Hauka á komandi árum. Heimir Óli hefur leikið með yngri landsliðum Íslands með góðum árangri og verið vaxandi í leik sínum með Íslandsmeisturunum. Þannig hefur Heimir í auknum mæli komið að stjórnun varnarleiks Hauka og er ekki amalegt fyrir hann að njóta liðsins Gunnar Bergs Viktorssonar í þeim efnum. Þeim félögum er gjarnan stillt upp í miðju 6:0 varnarinnar og er þá svo sannarlega hægt að tala um hávaxna vörn. Þó nokkur líkindi eru með sóknar- og varnarleik Heimis og Vignis Svavarssonar þegar hann lék með Haukunum fyrir nokkrum árum og er það nú ekki leiðum að líkast.

Jónatan Ingi Jónsson snéri aftur til Hauka fyrir þetta tímabil eftir skamma viðdvöl í Fimleikafélaginu og var liðinu öflugur liðsauki eftir brotthvarf Kára Kristjáns Kristjánssonar. Jónatan er nautsterkur leikmaður sem eru allir vegir færir. Hann hefur leikið minna en Pétur og Heimir en búast má við að sjá meira til hans næstu misserin.

Minnum Haukafólk á að mæta tímanlega á Hlíðarenda og mæta í hvítu! Áfram Haukar!