Þórður Jón Jóhannesson leikmaður 3.flokks karla hefur verið á ferð og flugi undanfarna vikur og mánuði og æft með nokkrum erlendum liðum Síðast var hann á reynslu hjá hollenska stórliðinu Ajax en hann dvaldi þar síðustu viku.
Fjallað var um þetta í Morgunblaðinu og hægt er að lesa það hér að neðan sem og myndir af Þórði á æfingum í Hollandi.
,,Henny de Regt, yfirþjálfari unglingastarfsins hjá Ajax, sagði að Þórður Jón hefði staðið sig mjög vel þessa viku sem hann var hjá félaginu.
Hann hefði sýnt margt gott ogværi auðsjáanlega mikið efni sem Ajax myndi fylgjast með í framtíðinni,“ sagði Kristján Bernburg, stjórnandi knattspyrnuskóla KB í Belgíu, við Morgunblaðið.
En útsendarar frá hollenska knattspyrnustórveldinu Ajax sáu til hins 14 ára gamla Þórðar Jóns Jóhannessonar úr Haukum í Hafnarfirði þegar hann var við æfingar í KB-skólanum í Lokeren síðasta sumar. Þeir buðu honum til æfinga og Þórður dvaldi hjá Ajax í síðustu viku en hollenska félagið er með eitthvert öflugasta unglingastarf sem um getur í Evrópu.
,,Þórður var látinn æfa með þremur mismunandi aldurshópum, U15 ára, U16 ára og U17 ára, en í elsta hópnum eru sjö unglingalandsliðsmenn Hollands. Ef erlendir piltar koma til Ajax þurfa þeir að vera betri en hollenskir jafnaldrar þeirra og þess vegna eru þeir prófaðir á æfingum með eldri piltum. Það er ljóst að Þórður er kominn á skrá hjá Ajax sem er mikill áfangi,“ sagði Kristján, sem fylgdist með Þórði á æfingum hjá hollenska félaginu.
,,Það er áberandi hve mikill hraði er á öllu á æfingunum hjá Ajax, og spilaður fótbolti með einni snertingu þar sem allir eru hreyfanlegir og vilja fá boltann. Þórður kom vel út miðað við hollensku strákanna og í læknisskoðun hjá félaginu kom í ljós að hann er geysilega vel á sig kominn Svo er athyglisvert að í akademíunni hjá Ajax verða strákarnir að standa sig vel í skólanim.Námið er númer eitt,fótboltinn númer tvö.“ sagði Kristján Bernburg.