Ungmennalið Hauka spilar í 1. deild

Undanfarin ár hefur Handknattleiksdeild Hauka náð góðum árangri á Íslandsmótinu í handknattleik bæði í karla og kvennaflokki. Þessum árangri má þakka mörgum þáttum í starfsemi deildarinnar, sem lagt hefur gífurlegan metnað í að standa vel að starfinu.

Mikill fjöldi efnilegra lekmanna eru í hinum ýmsu aldursflokkum deildarinnar og er staðan í elstu karlaflokkunum sérstaklega sterk hvað varðar fjölda góðra leikmanna. Því hefur verið tekin sú ákvörðun að tefla fram öðru meistaraflokksliði karla sem kemur til með að spila í fyrstu deild karla á keppnistímabilinu sem nú fer í hönd.

Hugmyndin er sú að þetta lið virki sem undirbygging fyrir úrvalsdeildarlið okkar sem þarf ávallt að vera í fremstu röð hérlendis og einnig þarf það að vera vel samkeppnishæft á alþjóðavettvangi. Í þessu nýja ungmennaliði fá leikmenn í öðrum og jafnvel þriðja flokki tækifæri til þess að keppa erfiða leiki í meistaraflokki auk þess sem leikmenn, sem þurfa lengri aðlögunartíma til þess að taka stökkið úr öðrum flokki í meistaraflokk, fá tækifæri til þess að sanna sig.

Að þessu mun samhent þjálfarateymi vinna, en eins og allir vita er Páll Ólafsson þjálfari úrvalsdeildarliðs Hauka. Óskar Ármannsson mun sjá um ungmennaliðið og 3. flokk karla og mun Hörður Davíð Harðarsson sjá um 2. flokk karla. Boris Bjarni Akbaschev verður þessum þjálfurum til ráðgjafar og aðstoðar í þeirra störfum. Með þessu vonast deildin til að ná enn betri árangri með yngri leikmenn félagsins en áður.