Unglingaflokkur Hauka vann góðan 26 stiga úti sigur á FSU í undanúrslitum bikarsins, 82-108 og munu því leika í úrslitum aðra helgi gegn sameinuðu liði Hamars og Þórs Þorl. Haukastrákarnir áttu allir mjög góðan dag og spiluðu gríðarlega vel jafnt í sókn sem vörn.
Fyrri hálfleikur var mjög jafn þó svo að Haukarnir leiddu mest allan tíman með fjórum til sjö stigum. Gríðarlega góð þriggja stiga nýting hjá FSU hélt þeim inní leiknum, en þeir hittu úr níu þriggja stiga skotum í fyrri hálfeik og var Valur Orri Valsson þeim erfiður ljár í þúfu í fyrri hálfleik. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 21-24 okkar mönnum í vil og í hálfleik leiddu Haukamenn með tveimur stigum, 52-54.
Ljóst var að það þyrfti að stöðva þriggja stiga skotin og að þreyta Val Orra sem hafði verið allt í öllu hjá FSU. Vörnin varð betri í síðari hálfleik hjá Haukastrákunum og hittni FSU varð ekki eins góð og í fyrri hálfleik. Munurinn jókst smátt og smátt og var mest 17 stig en FSU náði að minnka muninn í 10 stig undir lok þess þriðja. Í fjórða leikhluta jókst svo munurinn en frekar og varð hann mestur 26 stig. Frábær seinni hálfleikur hjá strákunum og ljóst að unglingaflokkurinn væri kominn í úrslitin.
Allir 10 leikmenn komu við sögu í leiknum og skiluðu allir góðri vinnu.
Örn Sigurðarson var stighæstur í liði Hauka en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði 33 stig og hirti 13 fráköst (12 af 18 í skotum). Haukur Óskarsson gerði 28 stig og tók 7 fráköst og Emil Barja sýndi stjörnutakta en hann var með þrefalda tvennu og skoraði 19 stig, tók 18 fráköst (9 sóknarfráköst.) og gaf 13 stoðsendingar.
Steinar Aronsson gerði 8 stig og var með 4 stoðsendingar, Guðmundur Kári var með 8 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar., Alexander Jarl 8 stig og 2 fráköst, Guðmundur Darri 2 stig, Ásgeir Einarsson 2 stig og Alex Óli 4 stoðsendingar.