Undirbúningur fyrir bikarúrslit á fullu

Baddi Magg að leggja línurnarFormlegur undirbúningur fyrir bikaleikinn hófst á mánudaginn eftir mikla leikjatörn að undanförnu.
Tekin var létt æfing á mánudaginn eftir góðan sigur á Grindavík sl sunnudag, línur lagðar fyrir leikinn og farið yfir dagskrá vikunnar.

Mikil eftirvænting í hópnum af vel skiljanlegum ástæðum þar sem margar af stelpunum eru að fara að spila sinn fyrsta bikarúrslitaleik í meistaraflokki.  En nokkrir leikmenn hafa þó upplifað þetta áður. Guðrún hefur spila 4 úrslitaleiki, Íris hefur spilað 1, Lele hefur spilað 1 og Margrét var í hóp síðast þegar Haukar voru bikarmeistarar sem var árið 2010. Þannig að það er einhver reynsla í hópnum fyrir þennan leik sem er mjög jákvætt.  Einnig má geta þess að engin af þessum 4 stelpum hefur tapað bikarúrslitaleik, sem verður að teljast nokkuð athyglisverður árangur.

Engin alvarleg meiðsli eru hjá neinum leikmanni þessa dagana (fyrir utan náttúrulega Ingu Sif sem er búin vera frá nánast allt tímabilið) og eru þjálfarar liðsins ánægðir með það eins og gefur að skilja. Vonum að svo verði áfram svo við getum verið með okkar sterkasta lið þegar við mætum í höllina á laugardaginn nk, ekki veitir af til þess að ná að vinna hið sterka lið Snæfells. En stelpurnar eru mjög svo einbeittar á verkefnið, ákveðnar að gefa all í þetta og njóta þess að spila þennan úrslitaleik. Hvetjum allt Hauka fólk að mæta í höllina á laugardaginn og styðja stelpurnar til sigurs. Það hefur sýnt sig í vetur að öflugur stuðningur skiptir sköpum.
meira síðar…..
 
Bjarni Magnússon,
þjálfari.