Í morgunblaðinu í dag er fjallað um nýliða Hauka í Iceland Express-deildinni. Er þetta liður Morgunblaðsins í kynningum á liðunum sem leika munu í IE-deildinni í vetur.
Í blaðinu eru viðtöl við bæði Örn Sigurðarson og Pétur Ingvarsson og segir Pétur að liðið ætli að standa sig varnarlega í vetur.
„Við höfum ekki sett nein markmið hvað varðar sæti í deildarkeppninni. Eitt af markmiðum okkar er að vera eitt besta varnarlið deildarinnar og ég tel okkur vera í stakk búna til þess að ná því,“ segir Pétur í samtali við Moggann og Örn lofar loftfimleikum.
„Ég get alveg lofað stuðningsmönnum Hauka að það verður boðið upp á risatroðslur í leikjum okkar í vetur. Ég get alveg tekið nokkrar og síðan er hann Semaj Inge alveg rosalegur í troðslunum. Hann bauð Gerald Roinson velkominn á fyrstu æfingunni og tróð alveg hrikalega í „andlitið“ á Gerald. Ég get eiginlega alveg lofað nokkrum slíkum troðslum frá okkur í vetur.“
Restina af umfjöllun má lesa á síðu 4 í íþróttafréttum Morgunblaðsins.