Á morgun sunnudag verða tveir handknattleiksleikir leiknir á Ásvöllum. Fyrst mætast Haukar U og ÍBV í 1.deild karla og strax að þeim leik loknum mætast Haukar og Víkingur í N1-deild karla. Fyrri leikurinn hefst klukkan 14:00 en sá seinni 16:00.
Haukamenn töpuðu sínum þriðja leik í deildinni í röð síðasta fimmtudag gegn Fram en lokatölur í þeim leik var 27-20. Leikur Haukamanna var allt í lagi í fyrri hálfleik en alsekki nægilega góður í seinni hálfleik og því fór sem fór.
Víkingar eru hinsvegar neðstir í N1-deildinni með ekkert stig eftir fimm leiki. Þeir töpuðu í síðustu umferð gegn HK í Digranesi í jöfnum og spennandi leik en HK-ingar fóru með eins marks sigur af hólmi 25-24. Þó að Víkingar séu enn stigalausir þá er engin ástæða til að vanmeta þá enda með ungt og efnilegt lið sem hafa verið óheppnir í síðustu leikjum og als ekki langt frá því að krækja sér í stigin sem hafa verið í boði.
Það er því búist við hörkuleik á Ásvöllum á morgun klukkan 16:00 en til gamans má geta eru fjórir fyrrum Haukamenn í Víkingsliðinu, markvörðurinn Björn Viðar Björnsson, hægri hornamaðurinn Þröstur Þráinsson, miðjumaðurinn Vigfús Gunnarsson og varnartröllið Sigurður Karlsson.
En eins og fyrr segir er annar leikur á Ásvöllum fyrr um daginn eða klukkan 14:00 en þá mætir Haukar U liði Eyjamanna í 1.deildinni. Haukar U hafa komið skemmtilega á óvart í deildinni og eru í 4.sæti deildarinnar með 6 stig en Eyjamenn sem féllu úr N1-deildinni í fyrra eru aftur á móti í 6.sæti deildarinnar með 4 stig.
Haukaliðið er gríðarlega efnilegt og vart að fylgjast með þeim í deildinni í vetur og hvetjum við því Haukafólk til að mæta á báða leikina á morgun.
Minnum svo á að meistaraflokkur kvenna leikur í N1-deildinni í dag, laugardag gegn Val í Vodafone-höllinni klukkan 16:00.