Í gær fóru fram tveir leikir á Ásvöllum. Leikur Hauka og Fylkis í N1-deild kvenna og leikur Hauka og Þróttar í 1.deild karla. Haukar fóru með öruggan sigur í báðum leikjum.
Kvennaleikurinn byrjaði jafn og spennandi en þó leiddu Haukar leikinn. Það var svo ekki fyrr en rúmlega 10 mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum sem Haukastelpurnar skiptu um gír og settu hvert markið á fætur öðru og náðu 6 marka forystu í hálfleik.
Í seinni hálfleik reyndu Fylkisstelpur að koma sér inn í leikinn að nýju en Haukar gáfu ekki færi á sér og héldu gestunum þægilega langt frá sér. Að lokum fór svo að Haukar sigruðu leikinn með 5 mörkum, 29-24.
Í seinni leik dagsins var aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi. Haukar U náðu strax góðu taki á liði Þróttar með þá Pétur Pálsson, Stefán Rafn Sigurmannsson og Aron Rafn Eðvarðsson í broddi fylkingar en þetta var fyrsti leikur Arons á tímabilinu og varði hann 29 bolta í markinu.
Stefán Rafn skoraði heil 12 mörk og Pétur 8. Í hálfleik var staðan 17-9 Haukum U í vil. Að lokum fór svo að tíu marka sigur Hauka var staðreynd, 29-19.
Eftir leiki gærdagsins eru Haukar U í 5.sæti 1.deildar með 2 sigra og 2 töp. Meistaraflokkur kvenna er aftur á móti í 3.sæti með 3 sigra og einungis 1 tap.
Næsti leikur Hauka í N1-deild kvenna er á laugardaginn næstkomandi í Vodafone-höllinni þegar þær mæta Val klukkan 16:00. Næsti leikur hjá Haukar U er í Mosfellsbæ á föstudaginn klukkan 19:30 en lið Aftureldingar er í 4.sæti deildarinnar.
Mynd: Aron Rafn Eðvarðsson varði 29 bolta í gær í sínum fyrsta leik í vetur.