Tryggvi og Hafsteinn farnir frá Haukum

Leikmenn meistaraflokks karlaTryggvi Haraldsson og Hafsteinn Ingason hafa yfirgefið herbúðir Hauka en þeir báðir gengu til liðs við Hauka frá danska 2.deildarliðinu Ribe fyrir tímabilið.

Að baki liggur sameiginleg niðurstaða stjórnar handknattleiksdeildar Hauka og leikmannanna tveggja. Leikmennirnir hætta að æfa nú þegar með liðinu og hafa tækifæri á að leita annað áður en leikmannaglugganum verður lokað.

Heimasíða Hauka þakkar leikmönnunum fyrir þann stutta tíma sem þeir hafa leikið hjá félaginu.

Hér að neðan má sjá tilkynningu frá handknattleiksdeild Hauka:

Tryggvi og Hafsteinn hætta strax að æfa og leika með Haukaliðinu og ætla að finna sér nýtt lið. Því miður hefur árangur samstarfsins ekki verið nægjanlegur og því fengu leikmennirnir tækifæri til að finna sér nýtt lið. Við óskum þeim velfarnaðar á nýjum stað. Haukar eiga mikið af efnilegum leikmönnum og er markmið félagsins að skila sem flestum upp í meistaraflokk félagsins. Það mun einmitt koma í hlut efnilegra leikmanna Hauka að fylla skörð þessara leikmanna.