Toppslagur hjá stelpunum

haukstjakvkStelpurnar í meistaraflokki kvenna í handbolta fá tækifæri á morgun, laugardag, að bæta upp fyrir tapaið um síðustu helgi gegn Selfoss. En á morgun verður mótherjinn lið Stjörnunnar og er þetta fyrsti leikur í 2. umferð deildarinnar. Leikið verður í Schenkerhöllinni kl. 16:00.

Liðin mættust í fyrsta leik tímabilsins en þá höfðu Haukastúlkur betur 21 – 20 eftir að hafa verið 7 mörkum undir á tímabili í seinni hálfleik. Fyrir leikinn eru liðin í 2. og 3. sæti deildarinnar en þar eru Stjörnustúlkur ofar með 11 stig eftir 7 umferðir en Haukastúlkur með 10 stig eftir leikina 7. Haukastúlkur verða án Guðrúnar Erlu Bjarnadóttur en hún fór úr lið á öxlinni í síðasta leik og verður hún frá næstu vikurnar og þá verður Jóna Sigríður Halldórsdóttir ekki meira með á tímabilinu þar sem hún er barnshafandi.

Það kemur þó maður í mannstað hjá Haukastúlkunum og mæta þær því galvaskar til leiks þegar að Stjörnustúlkur koma í Schenkerhöllina á morgun, laugardag, kl. 16:00. Það verður því um toppslag að ræða og um að gera fyrir allt Haukafólk að fjölmenna og styðja stelpurnar til sigurs. Áfram Haukar!