Toppliðið sótt heim að Hlíðarenda

HaukarHaukastelpurnar eiga erfiðan útileik fyrir höndum þegar þær sækja topplið N1 deildar kvenna heim að Hlíðarenda á laugardag. Leikurinn hefst kl. 15:00. Valsstúlkur hafa eins stigs forystu á Fram en Haukar eru í þriðja sæti, þremur stigum á eftir Fram. Hér er því um sannkallaðan toppslag að ræða. Valsstúlkur hafa ekki tapað leik á heimavelli til þessa en þó gert jafntefli við bæði Fram og Stjörnuna.

Fyrri leik liðanna lauk með öruggum sigri Hlíðarendastelpna og því ljóst að á brattann verður að sækja fyrir Haukana. Valur bar sömuleiðis sigur úr býtum í leik liðanna á milli jóla og nýárs þótt Haukum væri á endanum dæmdur sigur. Valsliðið hefur fengið liðsstyrk frá síðustu leikjum í N1 deildinni. Karólína Bæhrens Gunnarsdóttir hefur bæst í hópinn. Karólína er 21 árs örvhentur hornamaður sem er uppalin í Gróttu en kemur til Vals frá Molde í Noregi, þar sem hún hefur verið á mála síðan í haust. Nína Kristín Björnsdóttir, leikmaður Hauka til margra ára, hefur sömuleiðis gengið til liðs við Val og er því toppliðið ekki árennilegt um þessar mundir.

Haukastelpurnar hafa unnið fimm leiki í röð í deildinni og eru því á góðri siglingu og til alls vísar. Stuðningsmenn liðsins eru hvattir til að fjölmenna á Hlíðarenda og styðja við bakið á stelpunum.