Tímabilið hefst formlega á föstudaginn

Eftir að hafa spilað í tveimur æfingarmótum undanfarnar tvær vikur þá er loksins komið að fyrsta alvöru leik meistaraflokks karla á tímabilinu. Sá leikur verður leikinn á föstudaginn kl. 18:15 í Schenkerhöll okkar Haukamanna og er mótherjinn ÍBV.

Matthías Árni tekur við Íslandsmeistaratitlinum síðastliðið vor

Íslandsmeistarar Hauka

Þessi leikur er hinn árlegi leikur í Meistarakeppni HSÍ þar sem Íslandsmeistarar og Bikarmeistarar síðasta tímabils mætast og þar sem við Haukamenn eru ríkjandi Íslandsmeistarar leika þeir á heimavelli og mæta Bikarmeisturum síðasta tímabils ÍBV.

Þessi lið mættust í Hafnarfjarðarmótinu í síðustu viku og lauk leiknum í því móti með jafntefli 26 – 26.Þessi lið mættust einnig í þessum leik á síðasta tímabili en þá í öfugum hlutverkum því þá voru Eyjamenn ríkjandi Íslandsmeistarar og Haukamenn ríkjandi Bikarmeistar og þar af leiðandi fór leikurinn fram í Vestmannaeyjum. Sá leikur var æsispennandi allan leikinn en að lokum höfðu Haukamenn eins marks sigur 33 – 32 eftir framlengingu og eiga Haukar því titil að verja í leiknum á föstudag.

Smá breytingar hafa átt sér stað á Haukaliðinu en stæðsta breytingin er sú að Patrekur Jóhannesson er hættur að þjálfa liðið og í stað hans er Gunnar Magnússon tekinn við liðinu en Gunnar hefur þjálfað lið ÍBV með stórgóðum árangri undanfarinn ár. Helstu leikmanna breytingar eru þær að einungis hafa leikmenn yfirgefið Hauka en það eru þeir Árni Steinn Steinþórsson, Einar Ólafur Vilmundarson og Vilhjálmur Geir Hauksson og í stað þeirra eiga ungir og efnilegir uppaldir Haukamenn að taka við keflinu.

Lið Eyjamanna hefur gegnið í nokkuð fleiri breytingar en Haukaliðið en sæðsta breytingin er eins og fyrr segir sú að Gunnar Magnússon er hættur að þjálfa liðið og í stað hans hefur fyrrum Haukamaðurinn og fyrirliði Hauka Arnar Pétursson tekið við liðinu en Arnar hefur komið að þjálfun liðsins með einum eða öðrum hætti síðan að hann yfirgaf Haukamenn árið 2009.

Að auki er gamli Haukamaðurinn Kári Kristján Kristjánsson kominn aftur heim til Eyja en hann kemur til liðsins frá Val auk þess er annar gamall Haukamaður kominn aftur til Eyja en það er Nemanja Malovic en hann leikmeð Haukamönnum tímabilið 2011 – 2012 og Eyjamönnum tímabilið eftir en hann hefur spilað í Sviss undanfarin tvö tímabil. Eyjamenn hafa einnig styrkt markmannsstöðuna hjá sér með því að fá Stephen Nielsen til liðs við sig frá Val, því má með sanni segja að ÍBV hafi styrkt sig vel nú í sumar en þessir leikmenn koma í stað Henrik Eidsvåg, Guðna Ingvarssonar og Agnars Smára Jónssonar sem allir hafa yfirgefið liðið í sumar.

Það eru því tvö hörkulið sem mætast í fyrsta leik tímabilsins kl. 18:15 á föstudaginn í Schenkerhöllinni og er því um að gera fyrir Haukafólk að fjölmenna og styðja Haukamenn til sigurs. Áfram Haukar!