Tilboð fyrir Hauka í horni á leikinn á sunnudaginn

Meistaradeild Evrópu 2008/2009Á sunnudaginn leikur meistaraflokkur karla gegn liðinu ZTR Zaporozhye frá Úkraníu. Eins og fram hefur komið á síðunni síðustu daga verður tilboð á leikinn fyrir alla félaga í félagsskapnum Haukum í horni. Nú er komið að því að uppljóstra hvað tilboðið er.

 

 

Allir félagar í félagsskapnum Haukum í horni fá 3 fyrir 2 á leikinn gegn ZTR Zaporzhye næstkomandi sunnudag. Það þýðir að aðilar í félagsskapnum greiða fyrir tvo miða en fá þriðja miðann frían. Að sjálfsögðu verður opið fyrir Hauka í horni í VIP herbergið en það verður að þessu sinni í forsal veislusals Ásvalla. Sýna verður félagsskírteini við miðakaup og aðgang að VIP herbergi.

 

Miðaverð á leikinn verður 1.000 krónur fyrir fullorðna eins og venjulega á Ásvöllum og frítt verður fyrir börn 16 ára og yngri.

Barnahornið verður einnig opið á leiknum en þar er öllum börnum frá tveggja ára aldri boðið að leika sér á meðan leik stendur. Frítt er í barnahornið en foreldrar/forráðamenn barna á aldrinum tveggja til fjögurra ára verða að skrá börnin inn.

Haukar í horni er sameiginlegt stuðningsmannafélag handknattleiksdeild og knattspyrnudeildar Hauka. Félagar í Haukum í horni fá frítt á alla deildarleiki í meistaraflokkum á Ásvöllum og geta keypt sér merkt sæti í handboltastúkunni. Einnig fá félagar aðgang í VIP herbergi á öllum leikjum í meistaraflokkum.