Tap gegn meisturum Snæfells

Haukar sýndu ekki sparihliðina í kvöld þegar lið Snæfells lék gegn þeim í IE-deildinni á Ásvöllum í kvöld. Meistarar Snæfells voru að spila töluvert betri leik og unnu að lokum með 16 stigum 89-105 eftir að hafa náð mest 21 stiga forystu.

Haukar sitja sem fyrr í 8. sæti en Snæfell styrkti stöðu sína á toppi deildarinnar.

Lið Snæfells skoraði fyrstu 7 stig leiksins áður en Haukar komust á blað og leiddud með 10 stigum eftir fyrsta leikhluta og með 16 stigum í hálfleik.

Haukar byrjuðu af krafti í seinni hálfleik en Snæfellingar voru fljótir að jafna sig á því og juku muninn í 20 stig. Þessum mun héldu þeir fram á síðustu mínútu en þá náðu Haukar að klóra í bakkann og minnka muninn í 16 stig.

Semaj Inge var stigahæstur Hauka en hann hefur oft sýnt betri leik en hann gerði í kvöld. Semaj skoraði 19 stig, gaf 7 stoðsendingar og stal 5 boltum. Gerald Robinson var með 18 stig og 11 fráköst og Sævar Ingi Haraldsson 15 og 7 stoðsendingar.