Tap gegn ÍBV

Giedrius hélt Haukum inn í leiknum legni vel.

Giedrius hélt Haukum inn í leiknum lengi vel

Meistaraflokkur karla í handbolta tók á móti ÍBV í leik í 2. umferð Olís deildar karla en um er að tala frestaðan leik vegna þátttöku Hauka í EHF bikarnum. Fyrir leik var Haukaliðið búið að vinna báða sína leiki á meðan ÍBV var búið að tapa báðum leikjum sínum.

Það voru Eyjamenn sem byrjuðu leikinn miklu betur og komust þeir í 4 – 1 og svo seinna í 10 – 3 og enduðu þeir svo hálfleikinn á því að vera yfir 11 – 5 og gátu Haukamenn þakkað Giedrius í markinu fyrir það að vera ekki meira undir.

Það er greinilegt að Gunnar þjálfari hefur lesið vel yfir strákunum í hálfleik því allt annað Haukalið mætti til leiks í seinni hálfleik og minnkuðu þeir muninn jafnt og þétt en eftir um10 mínútna leik var munurinn kominn niður í eitt mark 14 – 13. Það sem eftir lifði leiks var leikurinn í járnum og skiptust liðin á því að vera yfir en þegar um 3 mínútur lifðu leiks var staðan jöfn 19 – 19 en það voru síðan gestirnir frá Eyjum sem voru sterkari á lokamínútunum og skoruðu síðustu tvö mörk leiksins og fóru með sigur af hólmi 21 – 19.

Það má með sanni segja að þetta hafi verið leikur tveggja hálfleikja hjá Haukum því fyrri hálfleikurinn var hreint út sagt hörmulegur en strákarnir tóku sig til og mættu miklu betur inn í leikinn i seinni hálfleik. Það var síðan að lokum öll dauðafærin sem fóru í súginn ásamt slæmum fyrri hálfleik sem fóru með þennan leik en þess má geta að Haukar klúðruðu 3 vítum auk nokkra hraðaupphlaupa í leiknum. Besti maður Hauka í leiknum var Giedrus í markinu með 17 skot varin, einnig átti Elías Már flottan leik og skoraði 7 mörk og varð hann markahæðstur Haukamanna.

Næsti leikur Hauka í deildinni er á Akureyri í KA-heimilinu gegn Akureyri á fimmtudaginn kl. 19:00 en næsti heimaleikur í Schenkerhöllinni er gegn Fram mánudaginn 28. september 19:30 það er því nóg að gera hjá stákunum þessa daganna og nóg af leikjum fyrir Haukafólk að sjá. Áfram Haukar!