Það var frekar kalt og þónokkur vindur á Schenkervellinum á Ásvöllum í kvöld þegar Haukar tóku á móti Þrótturum í 1.deild karla. Bæði lið þurftu nauðsynlega á stigum að halda. Heimamenn til þess að halda í við önnur lið í toppbarátunni en gestirnir til þess að þoka sér fjær botninum.
Leikurinn fór afar rólega af stað og fór fyrsti hálftíminn að mestu í stöðubaráttu og miðjuhnoð en fátt var um gott spil eða marktækifæri. Haukar fengu svo fyrsta færi leiksins á 37. mínútu þegar Magnús Páll Gunnarsson átti skalla af stuttu færi eftir fyrirgjöf en Ögmundur Ólafsson varði vel í markinu.
Ögmundur átti svo hreint stórbrotin tilþrif í markinu stuttu síðar þegar hann varði aftur frábæran skalla frá Magnúsi Pál, hélt ekki boltanum sem féll fyrir fætur Árna Vilhjálmssonar en Ögmundur var snöggur niður og varði aftur og hélt boltanum. Frábærar markvörslur !
Þróttarar áttu einnig nokkrar ágætar tilraunir í fyrri hálfleiknum en án þess að skapa verulega hættu.
Í seinni hálfleik var greinilegt að ekki átti að spila upp á jafntefli í kvöld, bæði lið mættu gríðarlega ákveðin til leiks og fengu fín færi strax í byrjun seinni hálfleiksins. Þróttarar björguðu svo á línu eftir skalla Gunnlaugs Fannars Guðmundssonar á 48. mínútu og Ögmundur varði svo enn einu sinni frábærlega gott skot Árna Vilhjálmssonar úr dauðafæri vinstra megin í teignum.
Eftir öfluga byrjun dróg nokkuð af Haukunum og virtust þeir missa aðeins trúna á að geta skorað við það að misnota færin sín. Þróttarar gengu hins vegar á lagið og náðu smá saman yfirhöndinni í leiknum. Guðfinnur Þórir Ómarsson átti fínt skot framhjá á 52. mínútu en ellefu mínútum síðar kom fyrsta mark leiksins. Andri Gíslason fékk þá sendingu í gegnum vörn Hauka og lyfti boltanum yfir Daða í marki Hauka úr þröngri stöðu, virkilega vel að verki staðið hjá Andra.
Á 70. mínútu bjargaði Gunnlaugur Fannar svo frá Daða Bergssyni á línu eftir að Daði hafði leikið á nafna sinn í Haukamarkinu og reynt að renna boltanum í markið úr þröngu færi. Einungis tveimur mínútum síðar tvöfölduðu Þróttarar forystu sína. Helgi Pétur Magnússon skoraði þá úr víti sem dæmt var á Guðmund Sævarsson, leikmann Hauka fyrir peysutog í teignum eftir hornspyrnu. Dómurinn nokkuð strangur en sennilega réttlætanlegur.
Við þetta datt nokkuð botninn úr leiknum, Magnús Páll átti þó eftir að fá eitt gott færi til viðbótar en skaut yfir markið úr góðri stöðu rétt utan markteigs.
Þegar fram yfir venjulegan leiktíma var komið settu Haukar nær alla sína leikmenn fram á völlinn og við það opnaðist vörn þeirra og það nýtti Vilhjálmur Pálmason sér til fullnustu á síðustu mínútunni og skoraði þriðja mark Þróttar.