Tap í hörku leik

Unglingaflokkur er úr í bikarkeppni KKÍ er þeir litu í lægra haldið fyrir FSu. Leikurinn endaði 70-80 fyrir FSu en lokatölur gefa ekki alveg raunhæfa mynd á gang leiksins.

Mynd: Emil Barja var drjúgur fyrir Haukaliðið gegn FSu – Arnar Freyr Magnússon

FSu náði fljúgandi starti og komust í 2-15 eftir aðeins um tveggja mínútna leik. Þjálfari Hauka tók þá leikhlé og fór yfir stöðuna með sínum mönnum. Jafnt og þétt byrjuðu Haukar að minnka muninn og þegar leikhlutinn var hálfnaður voru Haukar búnir að minnka muninn í 4 stig 11-15. Næstu mínútur var mikið skorað og endaði leikhlutinn 28-35 FSu í vil.

Annar leikhluti var jafn og skiptust liðin á að skora körfur og Haukar slepptu sterku liði FSu aldrei of langt frá sér. Leikhlutinn endaði 17-17 og FSu því ennþá með sjö stiga forystu 45-52.

Haukar komu dýrvitlausir til leiks í seinni hálfleik og náðu góðum 10-0 spretti og voru komnir yfir með þrem stigum 55-52. Liðin skiptust á að skora næstu körfur og leiða leikinn en þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta í stöðunni 60-59 slökuðu Haukastrákar á og FSu nýtti sér það. FSu skoruðu næstu 8 stig og leiddu aftur með sjö stigum þegar leikhlutanum lauk, 60-67.

Það var alveg ljóst að bæði lið ætluðu sér sigur í þessum leik og var því lítið skorað í fjórðaleikhluta og þeim um meira um sterkar varnir. Haukar minnkuðu muninn í fjögur stig þegar fimm mínútur voru eftir af fjórða leikhluta og þar við sat. Engin karfa kom frá Haukaliðinu það sem eftir lifði leiks þrátt fyrir margar tilraunir og FSu kláraði leikinn á vítalínunni.

Ungligaflokkur er með hörku lið og má segja að heppnin hafi ekki fallið þeirra megin í þessum leik. Allir börðust eins og ljón og voru tilbúnir að leggja mikið á sig. Sem dæmi um það er Helgi Björn Einarsson sem lét mikið fyrir sér fara í vörn Hauka og uppskar fyrir vikið bólgna vör og glóðurauga. Helgi kláraði leikinn þangað til hann fékk sína fimmtu villu seint í fjórða leikhluta. Eftir leik kom í ljós að Helgi hlaut heilahristing og og það flísaðist úr kinnbeini í baráttu hans undir körfunni.

Stigahæstur í liði Hauka var Emil Barja með 23 stig og 13 fráköst (9 sóknarfráköst), Helgi Björn Einarsson var honum næstur með 17 stig 4 stolna bolta og Gunnar Magnússon var með 16 stig og 9 stoðsendingar.