Haukar tóku á móti Grindavíkum í hörkuleik í 1.deild karla í gærkvöldi. Grindvíkingar höfðu betur í leiknum 0-1 með marki um miðjan fyrri hálfleik. Þetta var fyrsti heimaleikur Hauka í 1.deildinni og jafnframt þeirra fyrsta tap í deildinni.
Eina mark leiksins leit dagsins ljós á 35.mínútu og það gerði hægri bakvörðurinn Jordan Edridge með skot úr miðjum vítateig Hauka. Afar slysalegur aðdragandi og Jordan nýtti sér það eins og bakvörðum sæmir.
Næsti leikur Hauka í 1.deildinni er 23.maí á útivelli gegn Selfoss. Næsti heimaleikur er síðan 1. júní gegn Fjölni.
Haukaliðið bauð ekki upp á mikið í leiknum í gærkvöldi. Eini hættulega tækifæri Hauka í fyrri hálfleik var líklega eftir aukaspyrnu frá Hilmari Trausta Arnarssyni sem Alexander Freyr fékk frían skalla úr, en boltinn fór beint í hendur Óskars Péturssonar í marki Grindavíkur, sem hafði lítið að gera í markinu.
Haukarnir voru mun meira með boltann í seinni hálfleik og gestirnir pökkuðu nánast 9 og jafnvel 10 mönnum í vörn. Það var erfitt að brjóta sér leið í gegnum þá vörn. Háir boltar úr vörninni hjá Haukum skiluðu engu. Einu skiptin sem Haukarnir náðu að gera sig líklega til að jafna metin var eftir laglegt spil nokkurra manna.
Í uppbótartíma reyndu Haukarnir hvað þeir gátu til að jafna, og voru þeir nærri því í tvígang. Fyrst var Hilmar Rafn Emilsson nærri því að komast í kjörstöðu áður en varnarmenn Grindvíkinga renndu sér fyrir boltann og síðan átti annar varamaður, Aron Jóhann Pétursson fínt skot við markteiginn en Óskar í marki Grindvíkinga með allt á hreinu.
Lokatölur eins og fyrr segir 0-1. Haukarnir áttu ekki mikið skilið úr þessum leik en Grindvíkingarnir áttu þó ekki mikið meira skilið en svona er jú knattspyrnan, það lið sem skorar meira tekur með sér þrjú stigin. Grindvíkingar fá hinsvegar topp einkunn frá undirrituðum fyrir reynsluna, þeir nýttu sér hana t.d. í að vera duglegir að tefja. Það sýnir sig best í því að uppbótartíminn í seinni hálfleik var sex mínútur og hefði hæglega getað orðið lengri.
Næstu leikir Hauka:
23. maí: Selfoss – Haukar á Selfossi kl. 19:15 (Fimmtudagur)
1. júní: Haukar – Fjölnir á Ásvöllum kl. 14:00 (Laugardagur)
Sjáumst á vellinum – ÁFRAM HAUKAR!