Talent M.A.T. Plzen mætir á Ásvelli

Fyrsti formlegi handboltaleikur tímabilsins fer fram á sunnudag þegar að tékkneska liðið Talent M.A.T. Plzen mætir og keppir við meistaraflokk karla í EHF bikarnum á Ásvöllum kl. 18:00. Haukar unnu sér rétt á að taka þátt í Evrópukeppni með því að verða deildarmeistarar á síðasta tímabili en Talent M.A.T. Plzen varð tékkneskur meistari í vor og vann sér þannig inn þátttökuréttinn.

Talent M.A.T. Plzen er að taka þátt í EHF bikarnum 6 árið í röð en öll árin fyrir utan eitt hafa þeir dottið út í 2. umferð en tímabilið 2015/2016 náðu þeir í 3. umferðina. Áður höfðu þeir tekið þátt 3 sinnum en það var árin 1996 – 1999 þegar þeir tóku þátt í City Cup, Cup Winners Cup og Meistaradeildinni. Liðið hefur því einhverja sögu í Evrópukeppnum EHF líkt og Haukar en Haukar tóku fyrst þátt 1981 og eru þeir nú að taka þátt í 23. skipti í Evrópkukeppni. Síðast tóku Haukar þátt tímabilið 2016/2017 en leikirnir í Evrópukeppni eru núna orðnir 110 talsins.

Það verður mikið um að vera á Ásvöllum því frá kl. 16.00 hefst mátum á glænýjum keppnisbúningum frá PUMA fyrir yngri flokkana og samhliða mátuninni verður boðið upp á handboltaþrautir fyrir yngri kynslóðina inn í Ólafssal. Einngi verður Sportís með Asics skó til sölu á góðu kjörum fyrir iðkendur Hauka. Meðlimir Hauka í horni sem eiga eftir að fá stuðningsmannatreyjur geta nálgast þær uppá palli fyrir leik. Grillið verður rauðglóandi frá kl. 16.30 og verða hamborgar og pylsur til sölu í sjoppunni. Fjölmennum á völlinn í rauðu og hefjum handboltaveturinn 2019-2020 með stæl. ÁFRAM HAUKAR!