Tímamótasamningar við unga lykilleikmenn í liði Íslandsmeistara Hauka

Hópurinn við undirskrift samninga ásamt formanni handknattleiksdeildar og þjálfara m.fl. karlaSkrifað hefur verið undir þriggja ára samninga á milli handknattleiksdeildar Hauka og marga efnislegustu leikmanna m.fl. karla. Þetta eru Aron Rafn Eðvarðsson, markvörður, Heimir Óli Heimisson, línumaður, Sigurður Guðjónsson, línumaður, Stefán Huldar Stefánsson, markvörður, Stefán Ragn Sigurmannsson, hornamaður, Tjörvi Þorgeirsson, miðjumaður og Þórður Rafn Guðmundsson, vinstri skytta auk þess sem gengið var frá samningi við Einar Pétur Pétursson, hornamann fyrir nokkru. Það er mikið gleðiefni fyrir Hauka að hafa tryggt sér áframhaldandi samstarf við þessa vösku sveit ungra leikmanna sem er ætlað að gegna lykilhlutverki í liði Hauka næstu árin. Flestir þeirra hafa leikið með yngri landsliðum Íslands auk þess sem Aron Rafn steig nýverið sín fyrstu skref með A-landsliðinu gegn heims- og Evrópumeisturum Frakka og stóð sig með mikilli prýði. Haukar hafa líklega aldrei fyrr átt jafn fjölmennan og færan hóp ungra uppalinna leikmanna sem hafa sýnt það með verkum sínum að þeir eru reiðubúnir að axla sífellt meiri ábyrgð innan vallar sem utan. Strákarnir eru vitnisburður um það starf sem hefur verið unnið í yngri flokkum mörg undanfarin ár. Við óskum félaginu og “strákunum okkar” til hamingju og hlökkum svo sannarlega til að fylgjast með þeim á komandi árum.