Styrktarleikur fyrir Sigurð Hallvarðsson fyrrum leikmann Hauka

Næstkomandi sunnudag, 8.nóvember klukkan 13:00 fer fram styrktarleikur í knattspyrnu fyrir Sigurð Hallvarðsson fyrrum leikmann Hauka en Sigurður er mikill Þróttari og því fer leikurinn fram á gervigrasvellinum í Laugardalnum við Þróttaraheimilið.

Aðgangseyrið á leikinn er að eigin vali og hvetjum við alla til að mæta á leikinn á sunnudaginn og leggja sitt að mörkum, en Sigurður hefur átt við langvinn veikindi að stríða að undanförnu og í haus fór hann í sinn þriðja uppskurð þar sem enn einu sinni var reynt að ná hinu illkynja heilaæxli.

Sigurður lék með Haukum tímabilin 2000 og 2001 og tryggði til að mynda Haukum uppúr 3.deildinni þegar Willum Þór Þórsson var við stjórnvöldin. Árið seinna spilaði hann svo 13 leiki í 2.deildinni með Haukum og skoraði 6 mörk, en Sigurður var mikill markaskorari. Hann er til að mynda í 8.sæti yfir markahæstu leikmenn meistaraflokks karla á Íslandi, frá upphafi. Og eins og fyrr segir var hann Haukum afar drjúgur þau tvö ár sem hann spilaði með þeim.

Eftir allar þessar aðgerðir hefur Sigurður lamast vinstra megin í líkamanum og er nú í endurhæfingu á Grensásdeild.

Leikurinn á sunnudag verður á milli meistaraflokks Þróttar og Stjörnuliðs Willum Þórs Þórssonar núverandi þjálfara Keflavíkur. Á meðal leikmanna í stjörnuliðinu eru Guðni Bergsson, Arnór Guðjohnsen, Gummi Torfa, Sæbjörn Guðmunds, Óli Þórðar, Heimir Guðjóns, Gunnlaugur Jónsson, Þorvaldur Örlygsson, Hjörtur Hjartarson, Kristján Jónsson, Rúnar Kristinsson, Gunni Helga, Jón Ólafsson, Dóri Gylfa og fleiri kempur.

Vegna veikinda sinna hefur Siggi lítt stundað vinnu á árinu og mun ekki vinna fyrr en hann er búinn að ná sér. Það hefur sett strik í reikninginn hjá fjölskyldu hans. Þau Inga eru fimm í heimili, en samtals hafa þau eignast níu börn, saman og í sitthvoru lagi. Eitt barnanna sem ekki dvelur lengur heima er fjölfatlað og eitt barnanna sem býr heima er barnabarn þeirra.

Þetta hafa því ekki verið auðveldir tímar hjá Sigga og Ingu og því er markmiðið að létta undir með þeim. Leikurinn er á sunnudaginn kl. 13.00 í Laugardalnum á hinum nýja gervigrasvelli Þróttar. Aðgangseyrir er eins og fyrr segir að eigin vali. Þá hefur verið stofnaður reikningur fyrir þá sem komast ekki á leikinn og vilja styðja við bakið á Sigga. Reikningsnúmerið er 324-13-720 , kt. 020163-2409 en reikningurinn opnar á morgun.

Allir á völlinn og styðjum Sigurð í þessum erfiðu veikindum.