Stutt viðtal við Aron Kristjáns í tilefni af byrjun tímabils

Haukar Í tilefni af leikjum Hauka við lið HC Mojkovac frá Svartfjallalandi fékk heimasíðan Aron Kristjánsson þjálfara karlaliðs Hauka í handbolta og nýráðinn landsliðsþjálfara til þess að svara nokkrum spurningum tengdum komandi tímabili og leikjunum tveimur um helgina.

,,Mér líst ágætlega á veturinn. Það verður væntanlega hörð barátta um titlana í vetur og sæti í úrslitakeppninni í vor,“ sagði Aron spurður um hvernig sér litist á komandi tímabil í boltanum.

Varðandi Haukaliðið sjálft fyrir tímabilið hafði hann þetta að segja: ,,Liðið er aðeins breytt frá því í fyrra. Ég held að við höfum náð að fylla vel í þó skörð sem höggin voru í hópinn og því komið ágætlega út úr þeim breytingum. Við virðumst vera með meiri breidd en í fyrra og lítum vel út varnarlega. Við munum síðan styrkjast enn frekar sóknarlega þegar Sigurbergur Sveinsson byrjar að spila með okkur. En hann fór í hnéaðgerð í lok júní og vonandi verður hann orðinn leikfær í lok október eða byrjun nóvember.

HC Mojkovac frá Svartfjallalandi er andstæðingur Hauka í tveimur Evrópuleikjum nú um helgina, fyrri leikurinn fer fram í dag kl.18:00 og sá seinni á morgun kl.17:00. Aron segir að allir í Haukaliðinu, utan Sigurbergs Sveinssonar, séu klárir i leikina tvo. Hann hefur hins vegar lítið náð að kynna sér andstæðingin. ,,Það er erfitt að meta raunverulegan styrk þessa liðs. Við erum með myndir af tveimur leikjum frá þeim frá því í fyrra en liðið er eitthvað breytt í ár. Ég tel þó að við séum sigurstranglegri í tveimur leikjum á heimavelli,“ sagði Aron að lokum.