Mánudaginn 15. maí síðastliðinn spilaði meistaraflokkur karla hjá Haukum sinn fyrsta leik í 1. deildinni sumarið 2006.
Leikurinn var gegn Þrótti frá Reykjavík en þeir féllu úr Landsbankadeildinni síðastliðið sumar en síðan þá hafa verið miklar mannabreytingar á þeirra liði eins og hjá okkar mönnum í Haukum. Leikurinn var sá fyrsti sem háður var á nýja gervigrasinu á Ásvöllum en þar munu meistaraflokkar Hauka spila sína leiki í sumar. Veður til knattspyrnuiðkunar var hið fínasta, skýað en logn og fínn hiti, einnig mættu fjölmargir áhorfendur á leikinn til að styðja sitt lið.
Þessi leikur var fyrsti leikur nýs þjálfara Hauka en hann er Gústaf Adolf Björnsson. Einnig var þessi leikur sá fyrsti fyrir Albert Högna Arason en hann kom til liðs við Hauka fyrir þetta tímabil frá Aftureldingu svo fengu Haukar líka til liðs við sig framherjan Jónmund Grétarsson frá Stjörnunni en einnig voru nokkrir aðrir ungir strákar úr Haukum að stíga sín fyrstu skerf í meistararflokki.
Það var skarð fyrir skildi að nokkrir að lykilmönnum síðasta sumars voru ekki með í þessum leik en sumir þeirra voru horfnir á braut í önnur lið en einnig voru Amir og Hilmar Trausti í leikbanni í þessum leik svo er Hilmar Emils að stíga úr meiðslum sem og Ómar Karl en hann var samt á bekknum.
Byrjunarlið Hauka í þessum leik var þannig skipað að Kristinn (Kiddi) var í markinu, í öftustu línu voru Davíð Jóns, Davíð Ellerts, Pétur Örn og Albert en hann var jafnframt fyrirliði Hauka í þessum leik. Á miðjunni voru Kristján Ómar, Andri Jan, Hilmar Geir og Edilon, fyrir framann miðjuna var Árni og fyrir framan hann var Jónmundur.
Á fyrstu tíu mínútum leiksins gerðist fátt markvert þó voru Þróttarar ívið betri en á 15. mínútu átti Edilon gott skot en skot hans fór fram hjá markinu. Á 17. mínútu átti Hilmar geir góða fyrirgjöf á Jónmund en skalli hans var varinn auðveldlega af Ólafi Þór í marki Þróttara en á 19. mínútu átti Hilmar Geir góða rispu upp vinstri kantinn sem hann endaði svo með skoti á markið en það fór yfir mark Þróttara.
Á 21. mínútu fengu Haukar aukaspyrnu rétt við hornfánann vinstra megin eftir að brotið hafði verið á Andra Jan, Kristján Ómar tók spyrnuna og sendi fyrir markið og kom Davíð Ellerts og skallaði boltann rétt yfir mark Þróttara.
Svo á 27. mínútu áttu Þróttarar sitt fyrsta almennilega færi en þá fékk Magnús Már Lúðvíksson sendingu inn fyrir vörn Hauka eftir að Þróttur hafði unnið boltann á sínum vallarhelmingi en skot Magnúsar fór rétt framhjá marki Hauka. Stuttu síðar fengu Þróttur aukaspyrnu rétt við miðlínu og sendur var hár bolti inn í teig Hauka og mistök hjá Kidda í markinu kostaði næstum mark en varnar menn Hauka björguðu í horn en úr hornspyrnunni áttu Þróttarar skalla sem fór yfir mark Hauka.
Á 36. mínútu átti Árni ágæta marktilraun en skot hans fór yfir mark Þóttara.
Nokkrum sekúndum fyrir hálfleik átti Kristján Ómar fína rispu upp miðjuna en þegar hann komst inn í teig missti hann boltann of langt frá sér og reyndi að ná boltanum með tæklingu en uppskar bara gult spjald fyrir tæklinguna svo þegar Þróttarar voru rétt búnir að taka spyrnuna flautaði Leiknir Ágústsson til hálfleiks. Sem sagt 0 0 í hálfleik.
Í hálfleik gerðu Haukar tvær breytingar á liði sínu, Óli Jón og Guðjón komu inn á fyrir Davíð Jóns og Andra Jan.
Svo strax á 49. mínútu fékk Árni góða sendingu inn fyrir frá Albert en skot hans var ekki gott sökum þess að einn Þróttari hékk aftan í Árna.
Á 56. mínútu átti Hilmar Geir góðan sprett upp hægri kantinn og sendi síðan fyrir á Jónmund en skot hans var ekki gott og Ólafur Þór í marki Þróttara varði auðveldlega.
Jónmundur fékk svo góða sendingu inn fyrir vörn Þróttara á 60. mínútu, Ólafur Þór kom út á móti en Jónmundur vippaði yfir hann svo náðu varnarmenn Þróttar boltanum og spörkuðu honum í burtu.
Svo á 63. mínútu fengu Þróttur fyrsta alvöru færið sitt en þá komst Magnús Már aftur inn fyrir vörn Hauka en nú skaut hann í stöng svo náðu varnarmenn Hauka að bæja hættunni frá marki Hauka en svo tveim mínútum seinna fékk Guðjón að líta gula spjaldið fyrir að hafa sent dómaranum nokkur vel valin orð.
Haukar gerðu sína síðustu skiptingu á 69. mínútu en þá kom Guðbjörn inn á fyrir Hilmar Geir. Á þessum kafla sóttu Þróttarar stíft án þess að koma boltanum inn í mark Hauka.
Ekkert markvert gerðist fyrr en á 87. mínútu en þá fékk Guðjón að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt en hann sparkaði boltanum í burtu eftir að dómarinn hafði flautað.
Í uppbótartíma fóru hlutirnir að gerast. Á annari mínútu uppbótaratímans komst varamaður Þróttar, Óskar Snær Vignisson, í upplagt marktækifæri eftir mistök í vörn Hauka og setti Óskar boltann snyrtilega undir Kidda í markinu og kom Þrótti í 0 1. Svo tveim mínútum síðar meðan Haukar voru að leggja allt kapp á að jafna leikinn þá átti Óskar Snær góða rispu upp vinstri kantinn og sendi boltann fyrir á Magnús Má sem nelgdi boltanum yfir Kidda í markinu.
Stuttu síðar flautaði vafasamur dómari leiksins til leiksloka og 0 2 tap staðreynd í annars fjörugum leik og horft er fram á erfitt sumar hjá okkur Haukamönnum en þó má kalla þennan sigur Þróttara stuld af bestu gerð en Haukar áttu allavega eitt stig skilið úr þessum leik ef ekki öll þrjú stigin en 0 – 2 tap staðreynd.
En eins og Haukar spiluðu í þessum leik er ekkert að óttast því spilið sem kom upp á köflum var þrælfínt en varnarmennirnir eiga eftir að spila sig saman og sóknarleikurinn að slípast. Bestir Haukamanna voru þeir Hilmar Geir en hann átti góða spretti áður en honum var skipt útaf einnig var Albert traustur í vörninni og Davíð Ellerts átti góða spretti úr vinstri bakverðinum.
Svo hvet ég fólk til að mæta á næsta leik Hauka en hann verður í Grafavogi á móti Fjölni á laugardaginn kemur kl. 14:00. Áfram Haukar!!!