Strákarnir fara í Safamýrina

                                      

 

Á morgun, fimmtudag, fara strákarnir í heimsókn í Framhúsið við Safamýri og leika þar gegn heimamönnum klukkan 20:00. Fyrir leikinn eru bæði liðin með 4 stig í 2. og 3. sæti á eftir Stjörnumönnum sem eru með 6 stig. Haukar og Fram eru búnir með tvo leiki en Stjarnan þrjá.

Í síðustu 20 leikjum höfum við Haukamenn mikið betur en við höfum sigrað 14 af þeim leikjum, Fram unnið 5 og einu sinni hafa liðin skilið jöfn. Liðin mættust fjórum sinnum á síðasta tímabili og unnu hvort um sig tvo leiki. Haukar sigruðu tvo fyrstu leikina, sem báðir voru í deildinni, fyrst í október og svo desember en Fram sigraði seinni tvo leikina, fyrst í bikarnum í febrúar og svo í deildinni í mars.

Liðin hafa bæði mikið breyst frá því í fyrra. Við byrjum á því að fjalla um breytingar sem hafa orðið á liði Fram:
Liði hefur fengið til liðs við sig Jón Þorbjörn Jóhannsson sem er fyrrverandi lærisveinn Arons okkar hjá Skjern. Jón Þorbjörn er línumaður sem er að spila í fyrsta skipti í meistaraflokki á Íslandi. Björn Guðmundsson kom til liðsins frá Fylki, Filip Kliszczyk kom erlendis frá en hann er pólskur leikmaður og Guðmundur Hermannsson kom til liðsins frá Akureyri.
Liðið hefur einnig misst leikmenn en Þorri Björn Gunnarsson er farinn erlendis, Sergiy Serenko fór í atvinnumennsku erlendis og nú síðast fór Sigfús Páll Sigfússon til Vals eftir miklar málamiðlanir.

Liðið okkar hefur breyst mikið síðan í fyrra. Halldór Ingólfsson, Gunnar Berg Viktorsson, Arnar Jón Agnarsson og Gísli Guðmundsson komu til lið við okkur og frá okkur fóru Árni Þór Sigtryggsson, Samúel Ívar Árnason, Björn Ingi Friðþjófsson og Björn Viðar Björnsson (í láni til Víkings).

Við hvetjum alla til að mæta á leikinn og hvetja strákanna okkar til sigurs. Með sigri komumst við upp að hlið Stjörnunnar í efsta sætið.

ÁFRAM HAUKAR!!

Strákarnir fara í Safamýrina

Í kvöld klukkan 20:00 mæta strákarnir okkar Fram í Safamýrinni.

Fram eru núverandi Íslandsmeistarar. Í fyrra var í fyrsta skipti keppt um Íslandsmeistara með því fyrirkomulagi að það lið sem vinnur DHL-deildina verður meistari. Fram vann deildina með jafnmörg stig og við Haukamenn, en með betri stöðu í innbirgðis leikjum. Fram sigraði okkur í fyrsta leik tímabilsins í fyrra 28-25 og svo aftur rétt fyrir jól 33-26.

Í vetur hafa Haukar og Fram mæst tvisvar sinni. Fyrra skiptið var á Reykjavík Open og gerðu liðin þá jafntefli, 18-18. Seinna skiptið var á Ragnarsmótinu á Selfossiog vann Fram þann leik 37-35.

Frá því 2001 hafa Haukar og Fram mæst 16 sinnum. Haukar hafa unnið 12 leiki, Fram hafa unnið 3 leiki og einn leikur hefur farið jafntefli. Þá eru ekki taldir með leikir á Reykjavík Open og þess háttar mótum. Markatalan í þessum leikjum er 504-444 Haukum í vil.

Haukar urðu Íslandsmeistarar eftir langa bið árið 2000. Frá 2000 hefur liðið unnið 5 Íslandsmeistaratitla, árið 2000, 2001, 2003, 2004 og 2005. Árið 2002 datt liðið út í undanúrslitum gegn KA og árið 2006, fyrsta árið sem engin úrslitakeppni var, hafnaði liðið í 2.sæti, með jafnmörg stig og Fram sem varð Íslandsmeistari.

Árið 2000, þegar Haukar fögnuðu fyrsta Íslandsmeistaratitlinu eftir langa bið, voru mótherjar þeirra í úrslitaviðureigninni lið Fram. Framarar hófu einvígið með því að vann fyrsta leikinn en Haukar unnu næstu þrjá og fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum á Strandgötu á öðrum degi páska, 18.apríl 2000.

Frá árinu 2000 hafa Haukar tvisvar orðið bikarmeistarar og Fram einu sinni. Fram vann árið 2000 en Haukar árin 2001 og 2002. Haukar léku til úrslita árið 2002 gegn liði Fram og gjörsigraði Framara 30-20.

Lið Fram er nokkuð breytt frá síðasta keppnistímabili. Björgvin Páll Gústafsson kemur til liðsins frá HK, Einar Ingi Hrafnsson kemur frá UMFA, Andri Berg Haraldsson frá FH, Brjánn Guðni Bjarnason kemur úr Víking, Hjörtur Hinriksson úr FH og nýjustu félagsskiptin eru þau að Daníel Berg Grétarsson kom til liðsins frá liði FH. Það eru því 7 nýjir leikmenn í liði Fram frá síðasta ári, heilt byrjunarlið. Tveir leikmenn fóru frá Fram, Gunnar Harðarson fór í Val og Sverrir Björnsson fór í Gummersbach.

Lið Hauka er lítið breytt frá því í fyrra. Þrír leikmenn fór frá liðinu, en svo virðist vera að leikmenn Hauka fari yfirleitt ekki frá félaginu nema í atvinnumennsku eða erlendis í nám. Halldór Ingólfsson fór til Noregs að þjálfa lið Stavanger, Birkir Ívar Guðmundsson fór til Þýskalands og leikur með liði TuS N-Lubbecke og Jónas Stefánsson fór til Danmerkur í nám.

Í vetur leikur lið Fram í meistaradeild Evrópu en Haukar hafa tekið þátt í þeirri keppni síðan 2003. Fyrsta árið mætti liðið Barcelona, Magdeburg og Vardar. Haukar höfnuðu í þriðja sæti, eftir að hafa unnið Vardar tvisvar og gert jafntefli við stórlið Barcelona á útivelli. Árið 2004 mætti liðið Kiel, US Créteil og Sävehof. Liðið hafnaði annað árið í röð í þriðja sæti, eftir að hafa unnið Créteil tvisvar en tapað fyrir Sävehof og Kiel. Árið 2005 mætti liðið Århus, RK Gorenje Valenje og Torggler Group Meran. Liðið vann einn leik en tapaði hinum.
Fram er í riðli með Gummersbach, RK Celje Pivovarna Lasko og Sandefjord. Liðið hefur leikið einn leik og tapaði gegn Gummersbach á heimavelli.

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 20:00 í Safamýrinni og við hvetjum fólk til að mæta og styðja sitt lið til sigurs.

ÁFRAM HAUKAR!!