Haukastelpur eru komnar áfram í Borgunarbikar kvenna í knattspyrnu eftir 3-1 sigur á Fram í gærkvöld á Ásvöllum. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 1-1 og voru það Fram-stúlkur sem komust yfir en Sædís Kærbech Finnbogadóttir jafnaði metin um korteri fyrir leikslok.
Í framlengingunni voru Haukar mun sterkari aðilinn og kom Katrín Hulda Guðmundsdóttir stelpunum yfir í 2-1 með marki á 101 mínútu. Það var svo Hildigunnur Ólafsdóttir sem rak síðasta naglann í kistu Fram á loka mínútu framlengingar þegar hún skoraði þriðja mark Hauka.
Leikurinn var nokkuð jafn í venjulegum leiktíma, Fram töluvert betri aðilinn í fyrri hálfleik en Haukar í þeim seinni. Í framlengingunni voru Haukar svo eins og áður sagði mun sterkari.
Fjölmargir leikmenn í Haukaliðinu áttu flottan leik í gær en það var Katrín Hulda Guðmundsdóttir sem var án efa fremst meðal jafningja og var hún valin maður leiksins af stuðningsmönnum í leikslok.
Haukar eru nú komnir í 16-liða úrslit Borgunarbikarkeppni KSÍ og fara leikirnir fram þann 29 júní nk. en ekki hefur verið dregið um hverjir mætast.