Stórt tap gegn Val

HaukarÞað var ekki fagur sjón sem beið Hauka áhorfendum sem mættir voru í Hlíðarenda í kvöld, margir hverjir sem slitu sig frá sjónvarpinu þegar Ísland var að vinna Makedóníu 1-0 í hálfleik með það í huga að mæta á leik Vals og Hauka með mikilli eftirvæntingu enda bæði lið vel skipuð og Haukaliðið gerði sér lítið fyrir og stóð í stórliði Flensburg í Þýskalandi um síðustu helgi.

En annað kom á daginn, Valsmenn komust í 3-0 eftir einungis 2 og hálfa mínútu og þá var ekki aftur snúið. Aron Kristjánsson átti ekki orð yfir spilamennskunni og var búinn að taka leikhlé eftir einungis 3 mínútur. En það virtist lítið kveikja í Hafnfirðingunum því Valsmenn gerðu hvert markið af fætur öðru.

Haukamenn áttu engin svör gegn framliggjandi vörn Valsmanna og með Ólaf Gíslason í fanta formi fyrir aftan hana. Á meðan Valsmenn röðuðu inn mörkunum hinu megin gegn lélegri vörn Hauka og engri markvörslu.

Áhorfendur vart trúðu sínum eigin augum og áttu ekki til orð. Þó bætti ekki úr skák að dómarar leiksins Anton Gylfi Pálson og Hlynur Leifsson vísu leikmönnum Hauka útaf við litlar sem engar sakir meðan Valsmenn fóru oft og títt í andlit Haukamanna sem á að vera, samkvæmt reglunum beint útaf. En það er samt sem áður enganveginn hægt að kenna dómurum leiksins hvernig fór.

Eftir 17 mínútur voru Valsmenn búnir að skora 13 mörk gegn 4 mörkum Hauka. Staðan í hálfleik var 21-8 Valsmönnum í vil. Þrettán markamunur, það er svo sannarlega vel af sér vikið. 

Seinni hálfleikurinn byrjaði ekki gæfurlega og komust Valsmenn mest 17 mörkum yfir. En þá gáfu Valsmenn eftir sem betur fer og náðu Haukar að minnka muninn aðeins niður, en Birkir Ívar varði nokkra bolta í seinni hálfleik sem gerði það að verkum að sigur Valsmanna var einungis 12 mörk. 35-23.

Það getur ekki verið nema að leiðin liggi einungis upp á við eftir svona rasskellingu, þvílík og aðra eins niðurlægingu hef ég ekki orðið vitni af á Íslandi. Allir leikmenn Hauka sem og þjálfara teymið átti ekki til orð og vissu varla í hvorn fótinn átti að stíga þ.e.a.s. ef þeir vissu yfirhöfuð að þeir ætti að stíga í annan hvorn. 

Það má samt ekki taka það af Valsmönnum að þeir spiluðu hraðanbolta og skoruðu þau ófá mörkin úr hraðaupphlaupum enda leikmenn Hauka töluvert seinir að koma sér til baka í vörnina og miðað við hraðamuninn á leikmönnum Hauka og Vals í leiknum þá virtist sem að lið Valsmanna gæti allt eins verið Heimsmeistarar í 4x100m hlaupi.

En það þýðir ekkert að vera velta sér of mikið uppúr þessum leik, næsti leikur Hauka er gegn Vezprém á sunnudaginn í Meistaradeildinni á Ásvöllum klukkan 16:00. Meira verður fjallað um þann leik síðar.