Það voru að sjálfsögðu Haukamenn sem fóru með öruggan sigur af hólmi í kvöld en liðið mætti grönnum sínum í FH. Eftir frábæran fyrri hálfleik, góða vörn og ótrúlegar markvörslur frá Birki Ívari Guðmundssyni var aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi.
Haukar eru því enn með þriggja stiga forystu í N1-deild karla en FH-ingar ríða ekki feitum hesti í 5.sætinu en þeir hafa tapað síðustu þremur leikjum í röð. Og er liðið nú tíu stigum á eftir Íslandsmeisturunum.
Haukamenn skoruðu fyrsta markið í leiknum en Bjarni Fritzson jafnaði metin. Eftir það komu þrjú mörk í röð frá Haukum. Haukar héldu svo tveggja til þriggja marka forystu lungan úr fyrri hálfleiknum, en í stöðunni 8-5 fyrir Haukum skoruðu þeir fjögur mörk í röð og breyttu stöðunni í 12-5 en þannig var staðan í hálfleik.
Birkir Ívar Guðmundsson var í miklum ham í markinu í fyrri hálfleik og varði í kringum tíu bolta en auðvitað má hann þakka góðri vörn fyrir enda gáfu varnarmenn Hauka ekkert eftir en til að mynda skoraði Aron Pálmarsson einungis eitt mark í fyrri hálfleik og ekkert í þeim seinni.
Seinni hálfleikurinn byrjaði líkt og sá fyrri, en eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik náðu FH-ingarnir aftur á móti að minnka muninn í þrjú mörk 14-11 en þá sögðu Haukar hingað og ekki lengra og skoruðu þá sex mörk á móti einu og breyttu stöðunni í 20-12. Eftir það var einungis spurning hversu stór Haukasigurinn yrði og á endanum skyldu fimm mörk liðin af. Haukar skoruðu 22 en FH einungis 17.
Markahæstur í liði Hauka var Elías Már Halldórsson með sex mörk, Sigurbergur Sveinsson kom honum næst með fimm mörk þar af tvö úr víti. Freyr Brynjarsson og Andri Stefan voru með fjögur mörk hvor. Kári Kristján skoraði tvö og Einar Örn Jónsson gerði eitt mark.
Maður leiksins var síðan Birkir Ívar Guðmundsson en hann varði hvorki fleiri né færri en 26 bolta.
Hjá FH var ÍR-ingurinn Bjarni Fritzson markahæstur með fimm mörk en næstur honum kom Akureyringurinn Ásbjörn Friðriksson með þrjú mörk. Mosfellingurinn Örn Ingi Bjarkason gerði síðan tvö mörk líkt og fyrrum Haukamaðurinn Guðmundur Pedersen og línumaðurinn Sigurður Ágústson. FH-ingarnir Aron Pálmarsson og Hjörtur Hinriksson og Benedikt Reynir Kristinsson voru síðan með eitt mark hver.
Fyrrum Haukmaðurinn Magnús Sigmundsson stóð svo í marki FH og varði 13 bolta.
Næsti leikur Hauka er á föstudaginn gegn Akureyri fyrir norðan en síðan taka Haukar á móti HK, sunnudaginn 29.mars en það er síðasti heimaleikur liðsins í deildinni.