Í dag, miðvikudaginn 11.apríl kl. 19:15, sækja Haukastúlkur Njarðvík heim í þriðja úrslitaleik Iceland Express deildar kvenna í körfuknattleik.
Byrjunin hefur því miður ekki verið alveg eins og við hefðum kosið og Haukar komnir með bakið fast upp að vegg og 2-0 undir í viðureigninni. En sem betur fer fyrir okkur þá þarf að vinna 3 leiki og á meðan það er von, þá munum við berjast saman áfram og gera allt til að landa sigri á morgun. Liðinu hefur ekki gengið verr á útivelli í vetur og fyrsti leikurinn í seríunni í Njarðvík tapaðist á síðustu sekúndunum og því er nauðsynlegt að Hafnfirðingar fjölmenni í Ljónagryfjuna og tryggi það að slíkt slys gerist ekki aftur.
Látum vel í okkur heyra og hjálpum stelpunum að spila toppleik og til sigurs. Það kemur ekki til greina að sú þéttavaxna hefji upp raust sína á morgun og við munum yfirgnæfa hana í pöllunum og fresta hennar gauli.
VIÐ HEIMTUM ANNAN HEIMALEIK !
Áfram Haukar, alltaf, alls staðar! Kvennaráðið