Stórleikur á morgun, Haukar – ÍA

Stórleikur í 1.deild karla fer fram á Ásvöllum á morgun, en þá mætast Haukar og ÍA. Leikurinn hefst klukkan 20:00. Frítt er inn fyrir félaga í Haukar í horni og einnig er sérstakur boðsmiði í gangi fyrir foreldra iðkenda í Haukum og við hvetjum því foreldra að mæta á leikinn á morgun með börnunum og hvetja Haukaliðið til sigurs gegn lærisveinum Arnars og Bjarka Gunnlaugssonar.

ÍA leika nú í 1.deildinni eftir að hafa fallið úr Landsbankadeildinni í fyrra, en þeir hafa ekki spilað í 1.deildinni í mörg ár. Liðin hafa því ekki leikið deildarleik gegn hvor öðru í langan tíma.

Skagaliðið hefur byrjað mótið hræðilega, þeim var spáð öruggum sigri í deildinni en hafa þeir hafa aðeins náð sér í 4 stig eftir fyrstu 4 umferðirnar. Haukar hafa hinsvegar byrjað mótið frábærlega og hafa ekki tapað leik í fyrstu 4 umferðunum og hafa 10 stig á toppi deildarinnar. Það munar því 9 sætum á liðinum fyrir leikinn á morgun.

Skagamenn hafa misst nokkra leikmenn úr sínum röðum síðan þeir féllu úr efstu deild í fyrra en þeir misstu sinn aðalmarkaskorara og jafnframt sinn efnilegasta leikmann, Björn Bergmann Sigurðarson, en hann fór til Lilleström í Noregi. Þá misstu þeir einnig Króatana Vjekoslav Svadumovic og Dario Cingel sem höfðu spilað fyrir félagið í tvö ár en hurfu á braut þegar þeir féllu niður í 1.deildina. Þá fór Stefán Þór Þórðarson á lán til Vaduz í Sviss. Skagaliðið er aðallega byggt á ungum strákum sem eru uppaldir hjá félaginu og þá spila þjálfararnir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir með liðinu.

Skagaliðið er vissulega sterkt lið þótt þeir hafa ekki verið að sýna það í fyrstu umferðum deildarinnar og verður leikurinn á morgun líklega hörkuleikur.

Við hvetjum því alla Haukamenn til að mæta og styðja okkar menn í leiknum á morgun, það er mjög mikilvægt að styðja okkar menn til sigurs. Áfram Haukar.

Mynd: Mun Guðjón Pétur Lýðsson bæta við í markareikninginn sinn á morgun og verða því markahæstur leikmaður Hauka í sumar ?

– Arnar Daði Arnarsson & Þórarinn Jónas Ásgeirsson.