Spegilmynd af fyrri leik liðanna

Haukar unnu mikilvægan sigur í 1. deild karla í kvöld þegar þeir lögðu Fjölni að velli 77-75 í framlengdum leik.

Með sigrinum komust Haukar í 3. sætið í 1. deild og eru með 20 stig eftir 14 leiki og eru með jafn mörg stig og Valsmenn sem eru í 2. sæti.

Leikurinn í kvöld var spegilmynd fyrri leik liðanna: Mikil barátta, mikill hraði, jafnræði með liðunum, Haukarnir sterkari á lokasprettinum og í bæði skiptin fengu Fjölnismenn tækifæri til að vinna með lokaskoti leiksins.

Staðan eftir venjulegan leiktíma var 70-70. Lúðvík Bjarnason gat unnið leikinn fyrir Hauka en skot hans geigaði og því fengu Fjölnismenn tækifæri til að klára leikinn þegar 2.8 sekúndur voru eftir af leiknum. Boltinn endaði í höndunum á Patrick Oliver en hann náði ekki að láta boltann ofaní og því þurfti að grípa til framlenginar.

Í framlengingunni var jafnræði með liðunum þar sem vörnin var í aðalhlutverki. Kristinn Jónasson kom Haukum yfir 71-70 með vítaskoti en Fjölnismenn komust yfir með sniðskoti frá Ægi Steinþórssyni 71-72. George Byrd skoraði næstu fjögur stig Hauka og staðan 75-72 og Haukar í vænlegri stöðu. Fjölnismenn jöfnuðu leikinn með vítaskoti frá Tryggva Pálssyni og körfu frá Hauki Pálssyni en hann jafnaði leikinn 75-75 með fallegu gegnumbroti. Lokakörfuna skoraði Kristinn Jónasson í miðjum teignum og reyndist það sigurkarfan.

Fjölnismenn keyrðu upp völlinn og fengu ágætis skot sem geigaði um leið og tíminn rann út.

Sigurinn í kvöld var Haukum mikilvægur en með sigrinum þá komust þeir upp fyrir Fjölni og eru í 3. sæti með 20 stig en Fjölnir er með 18 stig. Haukar eiga einnig innbyrðis viðureignina við Fjölni og því ef liðin verða jöfn að stigum í leikslok þá verða Haukar ávallt fyrir ofan í töflunni.

Stigahæstur hjá Haukum var George Byrd sem var með alvöru tröllatvennu 22 stig og 21 fráköst. Kristinn Jónasson skoraði 17 stig og tók 11 fráköst.

Hjá Fjölni skoraði Ægir Steinþórsson 19 stig og Arnþór Guðmundsson 18.

Mynd: Lúðvík Bjarnason að leita að Kristni Jónassyni inn í teignumstefan@haukar.is