Slæm byrjun í úrslitakeppninni

HaukarHaukar fengu heldur betur ekki óska byrjun í úrslitakeppninni N1-deildarinnar í handbolta karla í kvöld þegar þeir tóku móti HK. Gestirnir úr Kópavogi gerðu sér lítið fyrir og unnu okkar drengi með 30 mörkum gegn 24 í Schenkerhöllinni.

Haukar voru með yfirhöndinna lengst af leik eða nánar tiltekið í 45 mínútur, það var ekki fyrr en í stöðunni 21-20 sem HK komst fyrst yfir í leiknum. Gestirnir litu hins vegar aldrei um öxl eftir að þeir náðu forystunni og skoruðu níu mörk gegn fjórum á síðustu 15 mínútunum. 

Sterk vörn gestanna skóp sigur þeirra í kvöld en að sama skapi voru okkar drengir frekar ólíkir sjálfum sér í sóknarleiknum og raunar í leik sínum í heild. Hið góða er hins vegar að nóg er eftir að einvíginu en þrjá sigra þarf til að komast í sjálfa leikina um Íslandsmeistaratitilinn. Næsti leikur liðanna er í Digranesi á föstudag kl.19:30 og liðin mætast svo þriðja sinni í Schenkerhöllinni á mánudag kl.19:30.

Tjörvi Þorgeirsson var yfirburðamaður í liði Hauka í kvöld og skoraði 9 mörk, næstur honum kom Gylfi Gylfason með 3, Freyr Brynjarsson gerði 3 og Stefán Rafn Sigurmannsson 3. Aðrir minna. Birkir Ívar Guðmundsson varði 14 skot og Aron Rafn Eðvarðsson 2.