Skokkhópur Hauka leggur í langferð til Berlínar

Glæsilegir fulltrúar Hauka á leið til Berlínar í hálfmaraþonSkokkhópur HAUKA samanstendur af gríðarlega duglegu og framtaksömu fólki á öllum aldri. Ekki nóg með að við æfum stíft þrisvar í viku og höldum uppi fjöri og gleði á æfingum heldur fær þessi frábæri hópur stundum ótrúlega góðar hugmyndir. Fyrir um það bil tveimur árum vaknaði sú hugmynd að fara hópferð til Berlínar til þess að taka þátt í hálfu maraþoni í þessari fallegu borg. Við settum fljótlega upp æfingaplan sem miðaði að því að sem flestir gætu hlaupið hálft maraþon sér til ánægju og yndisauka. Síðustu mánuði hafa félagar í Skokkhópi HAUKA verið samviskusemin uppmáluð. Stífar æfingar og fullt af aukaæfingum hafa skilað sér í framförum á öllum sviðum. Niðurstaðan er sú að rúmlega fimmtíu félagar ætla að skella sér í Berlínar- hálfmaraþonið.

Þessi risastóri hópur ætlar að mála Berlín HAUKA-rauða núna á sunnudaginn (3.apríl). Í þessum flotta hóp eru félagar sem eru að hlaupa sitt fyrsta hálf-maraþon, félagar sem eru að stefna á að bæta tímann sinn, félagar sem skokka bara til að njóta þess að hlaupa. Hvað sem öðru líður þá er engin vafi að Skokkhópur HAUKA kemur til baka brosandi út að eyrum eftir að hafa náð að heilla Berlínarbúa upp úr skónum.
Um leið og heim er komið bíður næsta verkefni sem er að taka þátt í Afmælishlaupi HAUKA 9. apríl………svo það er ekki eftir neinu að bíða, bara skella sér inn á www.hlaup.is  og skrá sig í Afmælishlaupið.