Skákþing Garðabæjar, 2.umferð.

Sverrir mætti stigahæsta manni mótsins, Davíð Kjartanssyni í 2.umferð. Sverrir hafði svart og beitti Alekínsvörn, sem hefur oft reynst honum vel. Í þetta sinn átti hann í höggi við verðugan andstæðing og fékk smám saman erfiða stöðu. Undir lokin höfðu báðir Hrók og Biskup (mislitir), en Davíð peði meira. Því miður átti Sverrir ekki kost á því að stilla upp nægjanlega traustri varnarstöðu og tap varð því raunin.

Undirritaður náði að rífa sig upp eftir fremur máttlausa taflmennsku í fyrstu skákinni, sem kostaði hálfan punkt. Ég stýrði svörtu mönnunum gegn öðrum Reyknesingi, Þorleifi Einarssyni, og fékk mjög sveigjanlega stöðu í byrjun. Mér tókst svo að gera andstæðing minn nánast planlausan og var að ég tel kominn með tæknilega unnið tafl í 17.leik þegar hann lék af sér kalli og gaf.

Ingi tefldi Drekaafbrigði Sikileyjarvarnarinnar gegn Páli Sigurðssyni. Þetta herbragð Inga gekk þó ekki alveg upp og hann tapaði um síðir.

Svenni átti í höggi við andstæðing minn úr fyrstu umferð, Júlíus Guðmundsson. Þetta var frekar tilþrifalítil skák, sem lauk með jafntefli eftir u.þ.b. 20 leiki.

Skák feðganna Þorgeirs og Sverris var aftur á móti sannkölluð flugeldasýning! Þorgeir hafði hvítt og var eftir 10 leiki gersamlega að kafsigla soninn! Ég sá því miður ekki framvindu skákarinnar, en varð nokkuð hissa þegar ég frétti að hún hefði farið jafntefli! Það væri gaman ef þeir feðgar myndu mæta á næstu Haukaæfingu og sýna okkur m.a. skákina.

Að lokum gerði Einar jafntefli við hina bráðefnilegu Hallgerði Helgu. Mér fannst Einar, sem hafði hvítt, fá smá frumkvæði í byrjun, sem síðan virtist fjara út og keppendur sættust á skiptan hlut.

Staða Haukamanna eftir 2.umferðina er eftirfarandi:

1.Þorvarður 1,5
2.Sverrir Örn 1
3-6. Svenni,Sverrir Þ.,Þorgeir, og Einar 0,5
7.Ingi

Viðureignir Haukamanna í 3.umferð verða eftirfarandi:

Páll Sigurðsson – Þorvarður
Þórir Benediktsson – Sverrir Örn
Sverrir Þ. – Hallgerður
Svanberg – Einar G.
Sveinn – Þorgeir (Haukaslagur nr.3)
Ingi – Elsa María.