Stelpurnar í 10. flokki kepptu í dag til úrslita gegn Keflavík í bikarnum. Keflavíkurliðið var talið fyrir leikinn mun sigurstranglegra og svo kom á daginn að þær unnu góðan sigur 53-34. Haukastelpur létu stúlkurnar frá Bítlabænum þó hafa fyrir hlutunum og stóðu sig með sóma.
Byrjunin varð Haukum að falli en Keflavík komst í 16-3. Haukastelpur náðu að minnka muninn og eftir einn leikhluta var staðan 18-6. Haukar minnkuðu muninn í 18-8 en þá kom ágætur kafli hjá Keflavík en í hálfleik var staðan 25-14.
Haukar héldu áfram að stríða Keflavík og unnu þær þriðja leikhluta með einu stigi og munurinn tíu stig þegar lokaleikhlutinn hófst 40-30. Í 4. leikhluta voru Keflvíkingar sterkari og unnu að lokum 53-34.
Haukastelpur sýndu frábæra takta á köflum og mega vera mjög stoltar af dagsverkinu. Margrét Rósa Hálfdanardóttir var stigahæst hjá Haukum með 18 stig en hún tók einnig 10 fráköst. Lovísa Björt Henningsdóttir skoraði 9 stig og tók 6 fráköst. Freydís Rut Árnadóttir var með 4 stig og Aldís Braga Eiríksdóttir setti þrjú stig.
Umfjöllun og myndasafn úr leiknum á Karfan.is
