10 flokkur kvenna spilaði í A riðli um helgina í Grindavík. Flokkurinn byrjaði veturinn í C-riðli og hafði fyrir mótið um helgina unnið sig örugglega upp í A-riðil.
Það var mikil eftirvænting í herbúðum Hauka fyrir mót helgarinnar og var stefnan sett á að ná að halda sér uppi í A-riðli fyrir úrslitamótið. Fyrir mótið var vitað að Keflavík væri með 2 sterkustu lið riðilssins en 11 stúlkur úr þeirra hópi höfðu verið valdar í fyrsta landsliðshóp 16 ára og yngri. Þar af eru nú 6 stelpur í 15 manna landsliðshóp. Vonir Haukanna voru að ná að vinna KR og jafnvel Grindavík sem hafa verið í A-riðli í allan vetur.
Haukar-Keflavík-b
Haukastelpurnar mættu á laugardagsmorgun með nokkuð vængbrotið lið aðeins 6 stelpur á leikskýrslu þær Margrét Rósa, Lovísa, Dagbjört, Kristjana, Andrea og Eydís. Guðrún Þóra er meidd, Edda var veik en mætti til leiks á sunnudag og gaf sig alla í verkefnið með gubbuna í hálsinum og loks var Freydís meidd á ökla en hún meiddist á 9.flokks móti um síðustu helgi. Fyrsti leikurinn var á móti Keflavík B og var þar á brattan að sækja nánast allan tíman. Haukastelpurnar byrjuðu vel en eftir að Keflavík komst yfir í lok fyrsta leikhluta eftir góða byrjun Hauka þá innbyrtu Keflvíkingar öruggan 30 stiga sigur. Vörn Haukanna var ekki nægilega góð í þessum leik og fengu Keflvíkingarnir að skjóta allt of mörgum 3 stiga skotum óáreittir. Haukastelpur bættu verulega vörnina eftir þennan leik sem varð til þess að glæsilegir sigrar unnust í öllum leikjum sem eftir voru.
Stigaskor: Margrét Rósa 21, Lovísa 9, Dagbjört 8, Kristjana 2
Haukar-UMFG
Annar leikur liðsins var á móti sterku liði Grindavíkur. Eftir góða byrjun Grindavíkurstelpna voru þær yfir allt þar til í lok leiksins, þó aldrei meira en 5 stigum. Haukstelpur spiluðu mjög vel þennan leik þar sem vörnin var mun betri en í fyrsta leiknum og varð það til þess að leikurinn vannst. Margrét Rósa, Lovísa og Dagbjört báru leik liðsins uppi í þessum leik sem endaði 41-40 fyrir Hauka. Endir leiksins var geysilega spennandi og voru foreldrar leikmanna Hauka alveg við það að tapa sér af spenningi. Þegar tæpar 2 mínútur voru eftir af leiknum voru Grindvíkingar 4 stigum yfir 40 – 36 þá setur Dagbjört niður 3 stiga körfu og minnkar muninn í 1 stig. Grindvíkingar fara í sókn eiga tvö skot sem dansa á körfuhringnum þar til Haukarnir ná boltanum. Haukar fara í sókn og Dagbjört setur niður 2 stiga körfu og kemur liðinu yfir í fyrsta skipti í leiknum. Grindvíkingar fara í sókn sem endar með 2 vítaskotum á síðustu sekúndum leiksins. Sem betur fer fyrir Haukana hittir leikmaður Grindvíkinga ekki úr vítaskotunum og fyrsti sigur Haukanna í A-riðli staðreynd.
Stigaskor: Dagbjört 19, Margrét Rósa 12, Lovísa 4, Kristjana 4, Andrea 2
Haukar-KR
Þriðji leikur liðsins var snemma á sunnudagsmorgni gegn KR og var greinilegt af leik Haukanna fyrstu 3 leikhlutana að leikmenn hefðu þurft að vakna fyrr um morguninn. Davíð þjálfari hvatti liðið áfram sem skilaði sér í 4 leikhluta þegar Haukarnir komust loksins yfir og innbyrtu í lokinn 5 stiga sigur og voru Haukarnir þar með öruggir með 3 sætið í riðlinum. Margrét Rósa var best Haukanna í þessum leik en greinilegt var á þessum leik að vörn liðsins var orðin miklu betri en í fyrsta leiknum og voru allir leikmenn liðsins að standa sig vel í vörninni.
Stigaskor: Lovísa 10, Margrét 9, Dagbjört 6, Kristjana 4, Edda 2 og Andrea 2
Haukar-Keflavík
Fjórði og síðasti leikurinn var á móti Keflavík sem sigrað hefur öll mótin hingað til. Þessi leikur er besti leikur sem liðið hefur sýnt og var fyrir áhorfendur á bandi Haukanna frábær skemmtun. Byrjunarlið Keflvíkinga var skipað 4 leikmönnum í 15 manna landsliðshóp 16 ára og yngri og því geysisterkt byrjunarlið. Haukarnir héldu í við Keflavíkurstelpurnar fram að hálfleik og var leikurinn jafn þó Keflavíkurstelpurnar væru ávalt yfir. Haukarnir komust yfir í lok 2 leikhluta og voru yfir í hálfleik 31-30. Í byrjun 3 leikhluta komust Haukarnir fram úr með góðum körfum frá Dagbjörtu og Margréti Rósu. Þegar hér var komið í leiknum var vörn Haukanna orðinn geysi þétt og áttu Keflvíkingar fá svör við góðum varnarleik Haukanna. Keflavíkurstelpurnar gerðu einungis 11 stig í seinni hálfleik en í þeim hálfleik reyndu þær mikið af örvæntingarfullum langskotum sem ekki rötuðu ofan í körfuna. Undir lok 3 leikhluta og í 4 leikhluta tók Kristjana sig til og fór að raða niður stigum fyrir Haukanna af löngu færi þegar Keflvíkingar voru farnir að pressa á leikmenn Haukanna. Undir lokinn gafst hið sterka lið Keflavíkur upp og innbyrtu Haukastelpurnar sanngjarnan 16 stiga sigur 57-41. Allt Haukaliðið átti frábæran leik og börðust eins og ljón allan tíman.
Stigaskor: Dagbjört 20, Margrét Rósa 20, Kristjana 9, Lovísa 4, Edda 3 og Andrea 1
Í lokaleik mótsins sigraði Keflavík – Keflavík B og urðu því þrjú lið efst og jöfn í mótinu. Haukastelpurnar enduðu því ásamt Keflavíkurliðunum í efsta sæti mótsins sem er frábær árangur og langt fyrir ofan væntingar Davíðs þjálfara sem stýrði liðinu af festu allt mótið. Ekki má gleyma frábærum stuðningi frá foreldrum bæði í stúkunni og á keyrslu til og frá mótstað. Það eina sem má nefna sem ekki gekk upp á mótinu þá voru það vítaskotin, en stelpurnar hittu aðeins úr 26 af 56 vítaskotum á mótinu.
Mynd: Stelpurnar í 10. flokki eru á mikilli siglingu – Hanna Hálfdanardóttir