Sigurbjörn Örn Hreiðarsson spilandi aðstoðarþjálfari Hauka í knattspyrnu var fenginn til að fara yfir síðasta tímabil hjá Haukum sem lauk fyrir rúmlega mánuði síðan. Haukar enduðu í 3. – 5. sæti 1.deildar í ár, en liðið stefndi á að koma sér upp í Pepsi-deildina.
Sigurbjörn lítur þó björtum augum á hlutina og fer rækilega yfir tímabilið, allt frá undirbúningstímabilinu í fyrra og fram að lokum tímabilsins. Á næstu dögum birtum við síðan svör Sigurbjörns við nokkrum spurningum sem heimasíðan lagði fyrir hann á dögunum.
En gefum Sigurbirni orðið:
Þegar upp er staðið þá eru annað árið í röð tvö lið með fleiri stig en við! Vonbrigði? Auðvitað þegar svo stutt er upp. En ef ég lít raunsætt á sumarið þá held ég að sætið sé ásættanlegt miðað við hversu lítið við skorum. Ef þú ætlar þér upp eða vinna titil þá er þumalputtareglan að þú þurfir tvö stig að meðaltali úr hverjum leik. Skora um tvö mörk og fá á þig eitt eða minna. Við vorum tölvert frá því í stigafjölda og skoruðum mörkum. En nálægt markmiðum í mörkum fengin á okkur.
Frá því mótið kláraðist 2011 og þar til Lengjubikarinn byrjaði í febrúar þá voru sex leikmenn farnir úr byrjunarliði og Guðmundur Viðar Mete að ströggla með meiðsl sem gera sjö leikmenn. Og úr hópnum frá 2011, voru 12 leikmenn farnir.
Miklar breytingar og við þurftum að byggja upp nýtt lið. Deildarbikarinn gekk flott. Lentum í 4.sæti sterkasta riðilsins. Öll þrjú liðin úr úrvalsdeild sem voru fyrir ofan okkur komust í undanúrslit og tvö kepptu til úrslita, þetta leit vel út. Rétt fyrir mót þá erum við komnir á gott skrið og að spila þéttan leik.
En á þeim tímapunkti þá misstum við tvo leikmenn út sem voru okkur mjög mikilvægir. Gummi Sævars. fótbrotnaði og Valur Fannar hætti vegna vinnu. Þetta veikti okkur til langtíma er ég klár á. Báðir með mikla reynslu sem skilar sér útí alvöru keppninnar þ.e. Íslandsmót og Bikarkeppni. Auðvitað kom Gummi tilbaka en skiljanlega ekki sami maður strax (en verður pottþétt eins og hann á að sér að vera á næsta ári). En fyrri hluti mótsins var mjög þéttur hjá okkur og langt fram í seinni umferð vorum við í 1. eða 2. sæti. Svo misstum við dampinn í seinni hlutanum og vorum ekki nógu öflugir til að fara upp. Tvö bestu liðin fóru upp.
Í bikarnum þá vorum við flottir. Slógum met með að vinna Snæfell 31-0 og duttum út fyrir úrvalsdeildarliði Fram í vítakeppni (frábær leikur af okkar hálfu).
Við þurfum að vera einbeittari á næsta ári, þurfum að verða betri sem lið, umgjörðin þarf að vera betri, áhorfendur sem mættu ekki þurfa að mæta og Haukar sem eitt öflugasta íþróttafélag landsins verður að hafa þann metnað að vera á toppnum í öllu sem félagið tekur sér fyrir hendur.
– Þetta hafði Sigurbjörn Örn Hreiðarsson að segja, og tökum við undir það sem hann sagði og þá sérstaklega síðustu setningarnar, setningar sem snerta marga Haukamenn og eitthvað sem við stuðningsmenn getum bætt – til að hjálpa liðinu og til að gera Hauka að enn stærra og sterkara félagi á öllum sviðum!
Fylgist með hér á Haukar.is á næstu dögum, er við birtum fleiri svör frá Sigurbirni og síðar meir, mun Jón Stefán Jónsson þjálfari meistaraflokks kvenna gera slíkt hið sama.