Sigur gegn Þór á heimavelli

Ljósm.: Hafliði Breiðfjörð, Fotbolti.net

Ljósm.: Hafliði Breiðfjörð, Fotbolti.net

Haukar unnu í gærkveldi sinn þriðja heimaleik í röð þegar liðið fékk Þór frá Akureyri í heimsókn á Ásvelli í 17. umferð 1. deildar karla. Björgvin Stefánsson var enn og aftur á skotskónum en leikurinn fór 1-0 og er Björgvin nú kominn með 14 mörk í deildinni og er annar markahæstur. Alexander Freyr Sindrason, fyrirliði liðsins, var valinn maður leiksins en það var tilkynnt í Haukum í horni.

Strákarnir hafa oft spilað betur í sumar, sérstaklega í fyrri hálfleik sem einkenndist af mikilli baráttu en eina mark leiksins kom á 14 mínútu.

Það var greinilegt að Luca og Tóti skerptu vel á hlutunum í leikhléi og voru okkar strákar sterkari í síðari hálfleik og hefðu klárlega getað bætt við mörkum.

En góður 1-0 sigur staðreynd og enn og aftur var það góð liðsheild sem skóp sigurinn þar sem allir lögðu sig 100% fram.
Haukar eru nú í 7. sæti með 26 stig eins og Fjarðabyggð sem er í 6. sæti en með aðeins betri markatölu. Til marks um hve stutt er í þriðja sætið þá situr KA þar með 31 stig en Þór er í því fjórða með 29 stig.

Næsti leikur Hauka er gegn Gróttu á laugardaginn kl. 14:00 og fer hann fram á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi en okkar strákar unnu fyrri leikinn 4-0 á Ásvöllum.

Áfram Haukar!