Fyrsti leikur Hauka í 1.deildinni fór fram í gærdag. 2-1 útisigur gegn Þrótti, með mörkum frá Ásgeiri Þór Ingólfssyni og Hafsteini Briem varð staðreynd og því byrjar liðin á góðum nótum.
Mikið púður hefur verið lagt í liðið í vetur og leikmenn hafa undirbúið sig vel fyrir komandi tímabil. Baráttan í 1.deildinni verður mikil og hart barist í hverjum einasta leik. Einn af nýliðunum í liðinu, Hafsteinn Briem spilaði sinn fyrsta mótsleik með Haukum í gær.
Við fengum hann til að svara nokkrum spurningum, út í leikinn og veruna í Haukum.
,,Leikurinn spilaðist nokkurnveginn eins og við bjuggumst við. Við vissum að Þróttararnir væru vel spilandi lið og það þyrfti að mæta þeim af krafti. Ég var óánægður með mína spilamennsku en ég náði kannski að bæta upp fyrir það með markinu. Annars var ég mjög sáttur hversu samstilltir við vorum og spiluðum sem ein heild sem skilaði þessum sigri,“ sagði Hafsteinn Briem.
Haukaliðið var vel undirbúið fyrir leikinn og það var lítið sem kom þeim á óvart í spilamennsku Þróttara. ,,Óli var búinn að kortleggja Þróttarana og það var lítið sem kom okkur á óvart í þeirra uppleggi. Undirbúningurinn fyrir leikinn var mjög góður og ég held að það hafi skilað okkur þessum vinnusigri.“
Hafsteinn Briem skrifaði undir samning við Hauka í síðustu viku eftir að hafa æft með liðinu í tæpar tvær vikur. Honum líður einkar vel í Haukum eins og hann lýsir hér.
,,Þetta hafa verið mjög skemmtilegar vikur síðan ég kom í Haukana. Hef líklega aldrei kynnst jafn góðri liðsheild og þeirri sem er hér. Það eru eintómir fagmenn í þessum hóp,“ sagði Briem-arinn sem er mjög bjartsýnn á sumarið hjá Haukum og segir að þetta gæti orðið skemmtilegt sumar fyrir Haukamenn.
,,Ég er mjög bjartsýnn á framhaldið hjá okkur. Það verður verðugt verkefni sem bíður okkar á mánudaginn í Víkinni og ég held að allir séu sammála um að bikarinn sé eitthvað sem menn vilja ná langt í.“
,,Ég held að það séu miklir möguleikar fyrir Hauka að ná langt á komandi tímabili þar sem við erum með stóran og breiðan hóp. Það er oftast það sem skilur á milli þegar menn fara að telja stigin úr pokanum eftir tímabilið,“ sagði Briem sem var síðan spurður að lokum hvort það hafi komið honum eitthvað á óvart hjá liðinu síðan hann kom og hann var ekki lengi að telja upp tvö atriði.
,,Ungu strákarnir hafa komið mér á óvart. Félagið er með mikið af ungum gaukum sem geta náð langt ef hausinn er rétt skrúfaður á. En það sem er líklega búið að koma mér mest á óvart er hversu stórt nafn Ásgeir Þór Kingólfsson er hérna í Hafnarfirðinum. Ég vissi að hann væri í miklum metum hjá fólkinu í bænum en bjóst ekki við að það væri eins og að fara í Kringluna með forsetanum þegar ég kíkti í Hress með meistaranum í vikunni,“ sagði hann léttur að vanda, enda ný búinn að skora sitt fyrsta mark fyrir Hauka, og fékk meðal annars hjálp frá Kingólfssyni í því marki.
Við minnum á næstu tvo leiki Hauka, í bikar og deild.
Næstu leikir Hauka:
Borgunarbikar karla: Víkingur R. – Haukar 13.maí kl. 19:00 – Víkingsvelli
1.deild karla: Haukar – Grindavík 17.maí kl. 19:15 – Ásvellir
ALLIR Á VÖLLINN – ÁFRAM HAUKAR!