Haukar og Víkingur mættust á nýja gervigrasvellinum í Víkinni í gær. Eins og flestir vita munu Haukar spila í Pepsi-deildinni á næsta tímabili en Víkingar í þeirri fyrstu. Haukar fóru með sigur úr bítum í leiknum 2-1 en staðan í hálfleik var 0-0.
Arnar Gunnlaugsson braut ísinn og skoraði sitt fyrsta mark fyrir Hauka á ferlinum. Víkingar jöfnuðu síðan metin en það var síðan Guðjón Pétur Lýðsson sem tryggði Haukum sigurinn.
Um var að ræða fyrsta æfingarleik beggja liða og vantaði nokkra leikmenn í bæði lið. Í lið Hauka vantaði markverðina Amir Mehica og Daða Lárusson, alla Hilmarana þrjá, þá Hilmar Trausta, Hilmar Rafn og Hilmar Geir sem og Garðar Ingvar Geirsson.
Guðmundur Viðar Mete og Arnar Gunnlaugsson voru að spila sinn fyrsta leik fyrir Hauka og Kristján Ómar Björnsson var að spila sinn fyrsta leik í nokkur ár með Haukum. Einnig komu nokkrir ungir leikmenn inn á sem voru að ganga uppúr 2.flokknum, þeir Arnar Freyr Gíslason, Jökull Jónasson og Hafsteinn Jökull Brynjólfsson. Albert Högni Arason byrjaði inn á en hann spilaði síðast í Noregi eftir að hafa gengið til liðs við Hauka í fyrra og liðfélagi hans úr norska liðinu, Ómar Karl Sigurðsson kom svo inn á sem varamaður en þeir eru heima um tíma að minnsta kosti þessa dagana.
Við munum tilkynna hvenær næsti æfingarleikur verður hér á heimasíðunni.