Sigur á HK í háspennuleik!

HaukarÞað var sannkölluð handboltaveisla í Schenkerhöllinni að Ásvöllum. Haukadrengir tóku á móti HK og var leikurinn spennandi frá fyrstu sekúndu til þeirrar síðustu en undirritaður minnist þess ekki að nokkurn tíma hafi fleiri en þrjú mörk skilið liðin að.

HK hófu leikinn betur og munaði þar mestu að erfiðlega gekk hjá Haukum í vörninni og HK virtust skora frekar auðveldlega á fyrstu mínútunum. Hægt og rólega tókst heimamönnum þó að vinna sig inn í leikinn þrátt fyrir að hafa þurft að leika manni færri á löngum köflum.

Í hálfleik leiddu Haukar með einu marki, 12-11 og má þar fyrst og fremst þakka Aroni Rafni Eðvarðssyni sem var að öðrum ólöstuðum besti maðurinn á vellinum en honum tókst að varna 21 skoti inngöngu í leiknum.

Leikhléð virtist hafa haft fremur slæm áhrif á gestina en ágæt á heimamenn því Haukar léku með ágætum í seinni hálfleik en hjá HK gekk hvorki né rak í sóknarleiknum. Leikurinn var þrátt fyrir allt mjög jafn og uppskáru Haukar að lokum eins marks sanngjarnan sigur og hefði vel mátt vera stærri en tvö stig dregin að landi og það er það sem telur.

Áfram Haukar!